Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1307, 141. löggjafarþing 606. mál: starfsmannaleigur (kjör starfsmanna, EES-reglur).
Lög nr. 34 27. mars 2013.

Lög um breytingu á lögum nr. 139/2005, um starfsmannaleigur, með síðari breytingum (starfskjör starfsmanna).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
  1. Í stað 1. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Lög þessi gilda um starfsmannaleigur á innlendum vinnumarkaði og starfsmenn þeirra. Jafnframt gilda lög þessi um skyldur notendafyrirtækja í tengslum við samning þeirra við starfsmannaleigur.
  2. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  3.      Með notendafyrirtæki er átt við einstakling, fyrirtæki, opinberan aðila eða annan þann sem stundar atvinnurekstur og hefur starfsmenn starfsmannaleigu til að sinna tímabundnum störfum undir verkstjórn sinni.
         Með starfsmanni starfsmannaleigu er átt við einstakling sem er ráðinn hjá starfsmannaleigu til að sinna tímabundnum störfum fyrir notendafyrirtæki undir verkstjórn þess.


2. gr.

     5. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

     Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 5. gr. a, svohljóðandi:
     Starfsmaður starfsmannaleigu skal á þeim tíma sem hann sinnir störfum fyrir notendafyrirtæki að lágmarki njóta sömu launa og annarra starfskjara og hann hefði notið hefði hann verið ráðinn beint til notendafyrirtækisins til að gegna sama starfi, sbr. einnig 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum.
     Á þeim tíma er starfsmaður starfsmannaleigu sinnir störfum fyrir notendafyrirtæki skal veita honum sama aðgang að hvers konar aðbúnaði og sameiginlegri aðstöðu í notendafyrirtækinu, svo sem mötuneyti og samgöngum, og starfsmenn notendafyrirtækisins njóta, nema mismunandi meðferð verði réttlætt á grundvelli málefnalegra ástæðna.

4. gr.

     Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Veita skal starfsmanni starfsmannaleigu, á þeim tíma sem hann sinnir störfum fyrir notendafyrirtæki, tímanlega upplýsingar um störf sem losna innan notendafyrirtækisins, þ.m.t. hlutastörf, til að hann hafi sömu tækifæri til að vera ráðinn ótímabundið og starfsmenn notendafyrirtækisins. Heimilt er að veita slíkar upplýsingar með almennum tilkynningum á viðeigandi stað innan notendafyrirtækis.

5. gr.

     Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Starfsmannaleiga skal leitast við að greiða fyrir aðgangi starfsmanns síns að starfsmenntun og starfsþjálfun, meðal annars svo að hann geti aukið hæfni sína og til að stuðla að framgangi og hreyfanleika hans í starfi. Gildir það einnig á milli þess sem starfsmaður starfsmannaleigu sinnir störfum fyrir notendafyrirtæki. Á þeim tíma sem starfsmaður starfsmannaleigu sinnir störfum fyrir notendafyrirtæki skal starfsmannaleigan jafnframt leitast við að greiða fyrir aðgangi starfsmannsins að starfsmenntun og starfsþjálfun sem ætluð er starfsmönnum hlutaðeigandi notendafyrirtækis.

6. gr.

     Á eftir 14. gr. laganna kemur ný grein, 14. gr. a, svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:
Innleiðing á tilskipun.
     Með lögum þessum er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/104/EB um starfsmannaleigur, sem vísað er til í 32. lið k XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 149/2012.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 21. mars 2013.