Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1053, 143. löggjafarþing 584. mál: vátryggingastarfsemi (uppgjör vátryggingastofns, EES-reglur o.fl.).
Lög nr. 33 8. maí 2014.

Lög um breytingu á lögum nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi, með síðari breytingum (uppgjör vátryggingastofns o.fl.).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 91. gr. laganna:
  1. Á eftir 2. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Auk þess verður réttur hluthafa til að taka ákvarðanir um málefni félagsins á grundvelli eignarhluta sinna óvirkur.
  2. Við 1. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Skilastjórn skal svo fljótt sem verða má gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fá yfirsýn yfir fjárhag félagsins. Á meðan hún ræður yfir félaginu gilda sömu takmarkanir á heimildum til að beita fullnustuaðgerðum og öðrum þvingunarúrræðum gagnvart því og ef það hefði fengið heimild til greiðslustöðvunar. Skal skilastjórn því aðeins gera ráðstafanir um meiri háttar hagsmuni félagsins að brýna nauðsyn beri til.
  3. Við 1. málsl. 2. mgr. bætist: sbr. 91. gr. a.
  4. Í stað orðanna „Skilastjórn skal í samráði við Fjármálaeftirlitið“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: Fjármálaeftirlitið skal í samráði við skilastjórn.
  5. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  6.      Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með slitum vátryggingafélags þrátt fyrir afturköllun starfsleyfis þess.


2. gr.

     Á eftir 91. gr. laganna kemur ný grein, 91. gr. a, svohljóðandi:
     Telji Fjármálaeftirlitið að hagsmuna vátryggingartaka og vátryggðra verði best gætt með því að reka félagið áfram og ljúka uppgjöri vátryggingastofns skv. 1. málsl. 3. mgr. 91. gr. er skilastjórn félagsins undanþegin ákvæði 2. mgr. 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o. fl., nr. 21/1991, og 1. mgr. 105. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995.
     Skilastjórn skal leggja áætlun fyrir Fjármálaeftirlitið til samþykktar um með hvaða hætti skuli ljúka uppgjöri vátryggingastofns, þ.m.t. um uppgjör tjóna og áætluð tímamörk uppgjörs. Fjármálaeftirlitið getur sett reglur um gerð og inntak slíkrar áætlunar og hvaða gögn skuli fylgja henni.
     Miða skal við að uppgjöri verði lokið innan þriggja ára frá skipunardegi skilastjórnar skv. 91. gr. en Fjármálaeftirlitinu er þó heimilt að framlengja uppgjörslok um eitt ár í senn í tvígang.

3. gr.

     1. málsl. 4. mgr. 93. gr. laganna orðast svo: Líftryggingafélag verður ekki tekið til gjaldþrotaskipta nema að undangenginni kröfu Fjármálaeftirlitsins þar að lútandi.

4. gr.

     1. málsl. 2. mgr. 94. gr. laganna orðast svo: Vátryggingafélag verður ekki tekið til gjaldþrotaskipta nema að undangenginni kröfu Fjármálaeftirlitsins þar að lútandi.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 6. maí 2014.