Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1255, 143. löggjafarþing 153. mál: stjórn fiskveiða (aflahlutdeildir í rækju).
Lög nr. 48 26. maí 2014.

Lög um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum (hlutdeildarsetning úthafsrækju og rækju á miðunum við Snæfellsnes, afli til strandveiða og bóta- og byggðaráðstafana, flutningur í aflamark).


1. gr.

     Í stað orðanna „Ráðherra skal hafa til ráðstöfunar aflaheimildir sem nemi allt að 300 lestum af óslægðum botnfiski á hverju fiskveiðiári“ í 1. málsl. 5. mgr. 6. gr. laganna kemur: Á hverju fiskveiðiári skal ráðherra hafa til ráðstöfunar aflaheimildir skv. 5. mgr. 8. gr. í óslægðum botnfiski.

2. gr.

     1. málsl. 1. mgr. 6. gr. a laganna orðast svo: Á hverju fiskveiðiári er ráðherra heimilt að ráðstafa aflamagni í óslægðum botnfiski skv. 5. mgr. 8. gr. sem nýtt skal til veiða með handfærum á tímabilinu frá 1. maí til 31. ágúst samkvæmt sérstökum leyfum Fiskistofu.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
  1. Orðin „allt að“ í 1. málsl. 3. mgr. falla brott.
  2. 3.–4. málsl. 3. mgr. falla brott.
  3. 4. mgr. fellur brott.
  4. 5. mgr. orðast svo:
  5.      Því aflamagni sem dregið er frá heildarafla í hverri tegund skv. 3. mgr. skal varið til að mæta áföllum skv. 1. tölul. 1. mgr. 10. gr., til stuðnings byggðarlögum skv. 2. tölul. 1. mgr. 10. gr., til línuívilnunar skv. 8. mgr. 11. gr., til strandveiða skv. 6. gr. a, til veiða sem eru taldar í 6. gr. og til annarra tímabundinna ráðstafana samkvæmt lögum þessum. Ráðherra skal eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um meðferð og ráðstöfun þessa aflamagns til næstu sex ára.
  6. 6. mgr. orðast svo:
  7.      Því aflamagni sem dregið er frá heildarafla skv. 3. mgr. er ráðherra heimilt að skipta í aðrar tegundir til að leitast við að tryggja tegundarsamsetningu aflamagns til ráðstafana skv. 5. mgr. Ráðherra skal mæla nánar fyrir um þessa framkvæmd í reglugerð, m.a. um gerð tilboða, tímafresti, magn í skiptum og að Fiskistofa annist framkvæmdina. Aflamagn samkvæmt þessu ákvæði er heimilt að flytja milli fiskveiðiára.


4. gr.

     1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo: Á hverju fiskveiðiári er ráðherra heimilt að ráðstafa aflamagni í óslægðum botnfiski skv. 5. mgr. 8. gr. sem hér segir.

5. gr.

     Í stað orðanna „3.375 lestir af óslægðum þorski“ í 5. málsl. 8. mgr. 11. gr. laganna kemur: magn í óslægðum botnfiski sem ráðherra ákveður með heimild í 5. mgr. 8. gr.

6. gr.

     Við 8. mgr. 15. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra getur þó heimilað með reglugerð flutning á aflamarki tiltekinna tegunda frá krókaaflamarksbátum til skipa sem hafa veiðileyfi með aflamark, enda séu skiptin jöfn í þorskígildum talið.

7. gr.

     1. málsl. ákvæðis til bráðabirgða I í lögunum orðast svo: Á hverju fiskveiðiári er ráðherra heimilt að ráðstafa aflamagni skv. 5. mgr. 8. gr. til áframeldis á þorski.

8. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða II, III, IV, VI, IX, X og XI í lögunum falla brott.

9. gr.

     Í stað orðanna „frest til 1. september 2014“ í 2. málsl. ákvæðis til bráðabirgða V í lögunum kemur: lokafrest til 1. september 2015.

10. gr.

     Í stað orðanna „til 2013/2014“ í 1. málsl. ákvæðis til bráðabirgða VII í lögunum kemur: til 2014/2015.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða VIII í lögunum:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Á fiskveiðiárunum 2010/2011 til 2014/2015 hefur ráðherra til ráðstöfunar, til sérstakrar úthlutunar, 2.000 lestir af síld (íslenskri sumargotssíld), þar af allt að 800 lestir til smábáta, og 2.000 lestir af norsk-íslenskri síld.
  3. Orðin „10 lestum af skötusel og“ í 2. málsl. 2. mgr. falla brott.
  4. Orðin „176 kr. fyrir hvert kg af skötusel og“ í 1. málsl. 3. mgr. falla brott.
  5. Í stað fjárhæðarinnar „13 kr.“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: 16 kr.


12. gr.

     Í stað orðanna „sem nema 1.800 þorskígildislestum“ í 1. málsl. ákvæðis til bráðabirgða XIII í lögunum kemur: sem ráðherra ákvarðar samkvæmt heimild í 5. mgr. 8. gr.

13. gr.

     Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
     
     a. (XIV.)
     Setja skal aflahlutdeild í annars vegar úthafsrækju og hins vegar rækju við Snæfellsnes, þ.e. í Kolluál, Jökuldjúpi og sunnanverðum Breiðafirði, með þeim hætti sem hér segir:
  1. 5/10 hlutum samkvæmt skráðum aflahlutdeildum hvers fiskiskips í úthafsrækju við lok fiskveiðiársins 2012/2013.
  2. 5/10 hlutum samkvæmt aflareynslu hvers fiskiskips í úthafsrækju á fiskveiðiárunum 2010/2011, 2011/2012 og 2012/2013. Fyrirmæli 2. málsl. 1. mgr. 9. gr. gilda við úthlutunina.

     Á fiskveiðiárinu 2013/2014 skal ákveða leyfilegan heildarafla í annars vegar úthafsrækju og hins vegar rækju við Snæfellsnes skv. 3. gr. samhliða setningu aflahlutdeilda skv. 1. mgr. þessa ákvæðis. Þann afla sem veiðist fram til þess að leyfilegur heildarafli er ákveðinn skal draga frá áður en kemur til úthlutunar aflamarks á fiskiskip skv. 3. mgr. 8. gr.
     
     b. (XV.)
     Árið 2014 er ráðherra heimilt, í milliríkjasamningi, að semja um skipti á tilgreindum aflaheimildum sem úthlutað hefur verið á skip fyrir aðrar aflaheimildir, enda meti ráðherra að slík skipti séu hagstæð. Handhafar aflamarks sem taka vilja þátt í slíkum skiptum skila þá þeim aflaheimildum sem um ræðir gegn úthlutun á aflaheimildum sem fást í skiptunum. Ráðherra setur reglur um þessi aflaskipti sem tryggja gagnsæi og jafnræði meðal útgerðaraðila. Útgerðaraðili sem skiptir á aflaheimildum samkvæmt þessu ákvæði skal standa skil á veiðigjaldi vegna upphaflegrar úthlutunar.

14. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi en 1.–5. gr., 7.–12. gr. og a-liður 13. gr. koma til framkvæmda við upphaf fiskveiðiársins 2014/2015.

15. gr.

     Við gildistöku þessara laga verður eftirfarandi breyting á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997, með síðari breytingum: Við 3. flokk í 2. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Enn fremur öll fiskiskip með aflvísa 1.200 eða lægri.

Samþykkt á Alþingi 16. maí 2014.