Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 179, 144. löggjafarþing 6. mál: lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda (EES-reglur).
Lög nr. 97 2. október 2014.

Lög um breytingu á lögum um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda, nr. 141 21. desember 2001, með síðari breytingum (innleiðing EES-gerðar).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „eftirtöldum tilskipunum sem þar gilda“ kemur: EES-gerðum sem taldar eru upp í viðauka við tilskipun 2009/22/EB.
  2. 1.–12. tölul. falla brott.
  3. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Ráðherra kveður á um hvaða EES-gerðir falla undir viðauka við tilskipun 2009/22/EB í reglugerð.


2. gr.

     Í stað „98/27/EB“ í 1. málsl. 2. gr. laganna kemur: 2009/22/EB.

3. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Stjórnvöld og félagasamtök á sviði neytendamála, sem ráðherra útnefnir, geta leitað lögbanns eða höfðað dómsmál skv. 4. gr. fyrir stjórnvöldum eða dómstólum hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu til að vernda heildarhagsmuni íslenskra neytenda, enda hafi afleiðinga athafnarinnar gætt hér á landi. Setja má í reglugerð nánari skilyrði fyrir þessari heimild og notkun hennar.
     Ráðherra skal tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um nafn og tilgang samtaka sem hann útnefnir skv. 1. mgr. og um nánari skilyrði, sem kunna að verða sett um heimild þeirra í reglugerð, til að fá þau tekin þar á skrá, sbr. 2. gr.

4. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/22/EB frá 23. apríl 2009, um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 35/2010, frá 12. mars 2010, sem birt var 10. júní 2010 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 30/2010.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 25. september 2014.