Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 803, 144. löggjafarþing 459. mál: almannatryggingar o.fl. (örorkugreiðslur almannatrygginga og lífeyrissjóða).
Lög nr. 137 22. desember 2014.

Lög um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (samspil örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða).


I. KAFLI
Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Við útreikning tekjutryggingar þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem fá greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum skal á tímabilinu 1. janúar 2014 til og með 31. desember 2014 gera samanburð á útreikningi tekjutryggingar annars vegar samkvæmt þeim reglum sem gilda á árinu 2014 og hins vegar þeim reglum sem voru í gildi á árinu 2013 auk 3,6% hækkunar og að teknu tilliti til þess tekjumarks sem myndast hefur við framkvæmd 16. tölul. ákvæðis þessa. Beita skal þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna.

II. KAFLI
Breyting á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum.

2. gr.

     Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Við útreikning heimilisuppbótar þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem fá greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum skal á tímabilinu 1. janúar 2014 til og með 31. desember 2014 gera samanburð á útreikningi heimilisuppbótar annars vegar samkvæmt þeim reglum sem gilda á árinu 2014 og hins vegar þeim reglum sem voru í gildi á árinu 2013 auk 3,6% hækkunar og að teknu tilliti til þess tekjumarks sem myndast hefur við framkvæmd 16. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar. Beita skal þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna.

III. KAFLI
Breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum.

3. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða XI í lögunum orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 15. gr. er óheimilt á tímabilinu frá 1. janúar 2014 til 31. desember 2014 að láta almennar hækkanir sem kunna að verða á örorkulífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, og lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, leiða til lækkunar á örorkulífeyri sjóðfélaga úr lífeyrissjóði.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 16. desember 2014.