Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1511, 144. löggjafarþing 430. mál: meðferð sakamála og lögreglulög (skipan ákæruvalds, rannsókn efnahagsbrotamála o.fl.).
Lög nr. 47 9. júlí 2015.

Lög um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögreglulögum (skipan ákæruvalds, rannsókn efnahagsbrotamála o.fl.).


I. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 21. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     Ríkissaksóknari sker úr um valdsvið héraðssaksóknara gagnvart öðrum ákærendum ef vafi rís um það. Ríkissaksóknari getur enn fremur falið héraðssaksóknara að fara með mál sem ekki fellur undir 23. gr. eða falið öðrum ákæranda að fara með mál sem þar fellur undir, svo sem ef rannsókn er þegar hafin á því.

2. gr.

     23. gr. laganna orðast svo:
     Héraðssaksóknari höfðar sakamál ef um er að ræða eftirgreind brot á almennum hegningarlögum:
  1. brot á ákvæðum XI. kafla laganna, öðrum en 99. og 101. gr.,
  2. brot á ákvæðum XII.–XIV. kafla laganna,
  3. brot á ákvæðum XV. kafla laganna, öðrum en 148. gr. ef brot tengist broti þar sem lögreglustjóri höfðar mál,
  4. brot á ákvæðum XVI. kafla laganna,
  5. brot á ákvæðum XVII. kafla laganna, öðrum en 155.–158. gr.,
  6. brot á ákvæðum XVIII.–XXI. kafla laganna,
  7. brot á ákvæðum XXII. kafla laganna, öðrum en 206. og 210. gr. a,
  8. brot á ákvæðum XXIII. kafla laganna, öðrum en 215. gr. ef brot tengist broti á umferðarlögum, og 217. gr., 1. mgr. 218. gr. og 219. gr.,
  9. brot á ákvæðum XXIV. kafla laganna,
  10. brot á ákvæðum XXVI. kafla laganna, sem hann rannsakar samkvæmt lögreglulögum.

     Héraðssaksóknari höfðar enn fremur sakamál vegna annarra brota sem hann rannsakar samkvæmt lögreglulögum.
     Ef háttsemi felur að auki í sér annað eða önnur brot en þau sem héraðssaksóknari fer með skv. 1. og 2. mgr. getur héraðssaksóknari höfðað mál vegna brotanna en ella gerir lögreglustjóri það.
     Að svo miklu leyti sem það fer ekki í bága við fyrirmæli ríkissaksóknara skv. 3. mgr. 21. gr. getur héraðssaksóknari gefið lögreglustjórum fyrirmæli um frekari rannsókn einstakra mála sem lögreglustjórar hafa sent héraðssaksóknara til ákvörðunar um saksókn, mælt fyrir um framkvæmd hennar og fylgst með henni.
     Héraðssaksóknari getur borið undir ríkissaksóknara álitaefni varðandi saksókn eða málsmeðferð að öðru leyti, svo sem ef hann telur að lögreglustjóri eigi að höfða mál, hann telur sig vanhæfan eða mál er vandasamt úrlausnar.
     Nú hefur héraðssaksóknari ákveðið að falla frá saksókn skv. 2.–4. mgr. 146. gr. og ber honum þá að tilkynna ríkissaksóknara það. Ef ríkissaksóknari telur að ekki hafi verið efni til að falla frá saksókn getur hann, innan tveggja mánaða frá því að sú ákvörðun var tekin, lagt fyrir héraðssaksóknara að höfða mál.
     Héraðssaksóknari tekur ákvörðun um kæru til Hæstaréttar í máli sem hann hefur til rannsóknar eða hann hefur höfðað.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „héraðssaksóknara“ í 2. mgr. kemur: ríkissaksóknara.
  2. 3.–5. mgr. orðast svo:
  3.      Nú hefur lögreglustjóri ákveðið að falla frá saksókn skv. 2.–4. mgr. 146. gr. og ber honum þá að tilkynna ríkissaksóknara það. Ef ríkissaksóknari telur að ekki hafi verið efni til að falla frá saksókn getur hann, innan tveggja mánaða frá því að sú ákvörðun var tekin, lagt fyrir héraðssaksóknara eða lögreglustjóra að höfða mál.
         Lögreglustjóri sem stýrt hefur rannsókn brots höfðar sakamál vegna þess nema ríkissaksóknari eða héraðssaksóknari höfði mál eða annað leiði af reglum um varnarþing skv. VI. kafla. Í því tilviki tekur ríkissaksóknari ákvörðun um hvaða lögreglustjóri skuli höfða mál eða hvort héraðssaksóknari geri það.
         Lögreglustjóri tekur ákvörðun um kæru til Hæstaréttar í máli sem hann hefur til rannsóknar eða hann hefur höfðað.


4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „Einnig má héraðssaksóknari“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: Þá má ríkissaksóknari.
  2. Á eftir orðinu „héraðssaksóknara“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: varahéraðssaksóknara.
  3. Í stað tilvísunarinnar „skv. 6. mgr. 23. gr.“ í 5. mgr. kemur: skv. 7. mgr. 23. gr.


5. gr.

     3.–5. mgr. 26. gr. laganna orðast svo:
     Ef lögreglustjóri væri vanhæfur til að fara með mál sem dómari skv. 6. gr. skal ríkissaksóknari fela héraðssaksóknara eða öðrum lögreglustjóra að fara með málið.
     Nú hefur ákæra verið gefin út og skal dómari þá, annaðhvort að eigin frumkvæði eða samkvæmt kröfu aðila, vísa máli frá dómi ef hann telur að ákærandi hafi verið vanhæfur til að höfða málið eða lögreglustjóri vanhæfur til að rannsaka það.
     Nú er maður á sama hátt og áður greinir vanhæfur til meðferðar einstaks máls fyrir dómi og má hann þá ekki flytja það sem ákærandi. Dómari úrskurðar um hæfi hans. Ef dómari telur hann vanhæfan til að fara með málið skal ríkissaksóknari eða eftir atvikum héraðssaksóknari sjálfur annast flutning þess eða fela öðrum löghæfum manni að gera það.

6. gr.

     2. málsl. 2. mgr. 38. gr. laganna orðast svo: Að öðrum kosti skal héraðssaksóknari, lögreglustjóri eða löglærður starfsmaður þeirra ákveða þóknun tilnefnds verjanda.

7. gr.

     Í stað orðsins „héraðssaksóknara“ í 3. málsl. 2. mgr. 40. gr. laganna kemur: ríkissaksóknara.

8. gr.

     2. málsl. 2. mgr. 48. gr. laganna orðast svo: Að öðrum kosti skal héraðssaksóknari, lögreglustjóri eða löglærður starfsmaður þeirra ákveða þóknun tilnefnds réttargæslumanns.

9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 49. gr. laganna:
  1. Á undan orðinu „ríkislögreglustjóri“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: héraðssaksóknari eða.
  2. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Ef héraðssaksóknari eða ríkislögreglustjóri fer með rannsókn skal kröfu beint til héraðsdóms í Reykjavík.


10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 52. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Rannsókn sakamála er í höndum lögreglu, undir stjórn héraðssaksóknara eða lögreglustjóra, nema öðruvísi sé mælt fyrir um í lögum.
  3. Í stað 3. og 4. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður sem orðast svo: Ríkissaksóknari getur gefið lögreglu fyrirmæli um að hefja rannsókn, sbr. 3. mgr. 21. gr.
  4. Í stað orðsins „héraðssaksóknara“ í 2. málsl. 5. mgr. kemur: ríkissaksóknara.
  5. 1.–2. málsl. 6. mgr. orðast svo: Sá sem á hagsmuna að gæta getur kært ákvörðun lögreglu skv. 4. mgr. til ríkissaksóknara innan eins mánaðar frá því að honum er tilkynnt um hana eða hann fær vitneskju um hana með öðrum hætti. Ber ríkissaksóknara að taka afstöðu til kærunnar innan þriggja mánaða frá því að hún berst honum.
  6. Í stað orðsins „Héraðssaksóknari“ í 3. málsl. 6. mgr. kemur: Ríkissaksóknari.
  7. 7. mgr. fellur brott.
  8. 8. mgr. orðast svo:
  9.      Lögreglu er skylt að rökstyðja í stuttu máli ákvarðanir sínar skv. 4. mgr. ef þess er óskað.


11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 85. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „lögreglustjóri“ í 1. málsl. kemur: eða eftir atvikum héraðssaksóknari.
  2. 2. málsl. orðast svo: Skal ríkissaksóknari fylgjast sérstaklega með því að héraðssaksóknari og lögreglustjórar sinni þessari skyldu sinni.


12. gr.

     2. mgr. 86. gr. laganna orðast svo:
     Þóknun fyrir rannsókn eða skoðun skv. 1. mgr. skal ákveðin af héraðssaksóknara, lögreglustjóra eða löglærðum starfsmanni þeirra.

13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 103. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „lögreglustjóri eða ákærandi“ í 1. málsl. 1. mgr. og 2. málsl. 2. mgr. kemur: ákærandi eða lögreglustjóri.
  2. Í stað orðanna „lögreglustjóri, ákærandi“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: ákærandi, lögreglustjóri.
  3. Í stað orðanna „lögreglu eða ákæranda“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: ákæranda eða lögreglustjóra.


14. gr.

     Í stað orðanna „lögreglustjóra eða ákæranda“ í 1. málsl. 2. mgr. 104. gr. laganna kemur: lögreglustjóra, ákæranda.

15. gr.

     5. mgr. 146. gr. laganna orðast svo:
     Í málum þar sem héraðssaksóknari eða lögreglustjóri fer með ákæruvald getur hann fallið frá saksókn. Nú telur hann ástæðu til að falla frá saksókn skv. 2.–4. mgr. en vafa leika á heimild til þess og skal hann þá senda ríkissaksóknara málið til ákvörðunar.

16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 147. gr. laganna:
  1. Í stað 3. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Héraðssaksóknara og lögreglustjóra er skylt að rökstyðja í stuttu máli ákvörðun sína um að fella mál niður sé þess óskað. Ákvörðun um að falla frá saksókn ber að rökstyðja með því að vísa til viðeigandi ákvæðis í 146. gr. en ekki er skylt að færa frekari rök fyrir henni.
  2. 2. mgr. orðast svo:
  3.      Sá sem ekki vill una ákvörðun héraðssaksóknara eða lögreglustjóra skv. 1. mgr. getur kært hana til ríkissaksóknara innan eins mánaðar frá því að honum var tilkynnt um hana. Skal ríkissaksóknari taka afstöðu til kærunnar innan þriggja mánaða frá því að hún barst honum en ekki er skylt að rökstyðja þá afstöðu sérstaklega nema ákvörðun héraðssaksóknara eða lögreglustjóra sé felld úr gildi.
  4. 3. mgr. fellur brott.
  5. 4. mgr. orðast svo:
  6.      Ríkissaksóknari getur fellt ákvörðun héraðssaksóknara eða lögreglustjóra skv. 1. mgr. úr gildi að eigin frumkvæði ef hann telur hana andstæða lögum eða fjarstæða að öðru leyti, enda sé það gert innan þriggja mánaða frá því að hún var tekin.


17. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr. 149. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „héraðssaksóknari“ kemur: ríkissaksóknari.
  2. Í stað orðsins „mánaðar“ kemur: tveggja mánaða.


18. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 150. gr. laganna:
  1. Á undan orðinu „lögreglustjóri“ í 1. og 2. málsl. 1. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. kemur: héraðssaksóknari eða.
  2. Á undan orðinu „lögreglustjóra“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: héraðssaksóknara eða.
  3. Í stað orðsins „héraðssaksóknari“ í 1. málsl. 6. mgr. kemur: ríkissaksóknari.


19. gr.

     2. mgr. 151. gr. laganna orðast svo:
     Um fullnustu sekta sem lögregla hefur ákveðið skv. 1. mgr. 148. gr. og ákvörðunar skv. 1. mgr. 149. gr. fer samkvæmt lögum um fullnustu refsinga.

20. gr.

     Í stað orðsins „héraðssaksóknari“ í 3. mgr. 163. gr. laganna kemur: ríkissaksóknari.

21. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða VII í lögunum fellur brott.

22. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     Eftir 15. júlí 2015 er ráðherra heimilt að skipa héraðssaksóknara og skal hann hefja undirbúning að stofnun embættis héraðssaksóknara. Heimilt er að bjóða embættismönnum og öðrum starfsmönnum ríkissaksóknara, embættis sérstaks saksóknara og öðrum þeim sem starfað hafa að verkefnum sem færð verða undir embætti héraðssaksóknara starf hjá embættinu. Þó er ráðherra heimilt að flytja embættismenn frá ríkissaksóknara og embætti sérstaks saksóknara á grundvelli 36. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, til embættis héraðssaksóknara. Við ráðstöfun starfa eða embætta samkvæmt þessu ákvæði þarf ekki að gæta að skyldu til þess að auglýsa laus störf til umsóknar, sbr. 7. gr. laga nr. 70/1996. Skulu ný embætti taka við þeim réttindum og skyldum sem einstakir embættismenn hafa áunnið sér, þ.m.t. samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996.

II. KAFLI
Breyting á lögreglulögum, nr. 90/1996, með síðari breytingum.

23. gr.

     A-liður 2. mgr. 5. gr. laganna fellur brott.

24. gr.

     Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     9. Héraðssaksóknari fer með lögreglustjórn á sínu verksviði, sbr. 8. gr., og hefur stöðu og almennar heimildir lögreglustjóra samkvæmt þessum lögum og lögum um meðferð sakamála.

25. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
  1. 1.–4. mgr. orðast svo:
  2.      1. Lögreglan annast rannsókn brota undir stjórn héraðssaksóknara eða lögreglustjóra. Brot skal rannsaka í því umdæmi þar sem þau eru framin, sbr. þó ákvæði 2. mgr. þessarar greinar, b-liðar 2. mgr. 5. gr. og 35. gr. Ráðherra setur nánari reglur samkvæmt tillögu ríkissaksóknara um hvernig stjórn rannsóknar skuli háttað, hvenær brot skuli rannsakað undir stjórn ríkislögreglustjóra skv. b-lið 2. mgr. 5. gr. og um rannsóknaraðstoð. Ráðherra setur samkvæmt tillögu ríkissaksóknara nánari reglur um stjórn lögreglurannsókna og samvinnu héraðssaksóknara og lögreglustjóra við rannsókn sakamála. Mæli sérstakar ástæður með því er ráðherra heimilt að tillögu ríkissaksóknara að kveða á um að rannsókn tiltekinna brotaflokka í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra og í Vestmannaeyjum fari fram í öðru umdæmi.
         2. Héraðssaksóknari annast rannsókn brota gegn XII. kafla, alvarlegra brota gegn 128.–129. gr., 179. gr., 247.–251. gr., 253.–254. gr., 262. gr., 264. gr. og 264. gr. a almennra hegningarlaga, alvarlegra brota gegn skatta- og tollalögum, brota gegn lögum sem varða gjaldeyrismál, samkeppni, verðbréf, lánsviðskipti og aðra fjármálastarfsemi, umhverfisvernd, vinnuvernd, stjórn fiskveiða og annarra alvarlegra, óvenjulegra eða skipulagðra fjármunabrota sem tengjast atvinnurekstri eða verslun og viðskiptum. Einnig er honum heimilt að annast rannsókn brota sem tengjast framangreindum brotum. Ríkissaksóknari getur falið héraðssaksóknara rannsókn annarra brota.
         3. Héraðssaksóknari annast móttöku tilkynninga á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Héraðssaksóknari annast einnig greiningu á tilkynningum og miðlun upplýsinga sem fengnar eru með þeim hætti til annarra stjórnvalda að því marki sem nauðsynlegt er.
         4. Héraðssaksóknari skal vinna að endurheimt og upptöku ólögmæts ávinnings af hvers kyns refsiverðri háttsemi í tengslum við lögreglurannsóknir við embætti hans og önnur lögreglustjóraembætti.
  3. Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
  4.      8. Ríkissaksóknari sker úr um valdsvið héraðssaksóknara gagnvart lögreglustjórum og milli lögreglustjóra innbyrðis, varðandi rannsóknir brota, ef vafi rís um það.


26. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      1. Ríkislögreglustjóri, aðstoðarríkislögreglustjóri, héraðssaksóknari, varahéraðssaksóknari, lögreglustjórar, aðstoðarlögreglustjórar á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, löglærðir fulltrúar lögreglustjóra og lögreglumenn fara með lögregluvald.
  3. Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
  4.      9. Sérfróðir starfsmenn héraðssaksóknara og lögreglustjóra hafa, samkvæmt nánari ákvörðun héraðssaksóknara eða lögreglustjóra, heimild til að annast skýrslutöku á rannsóknarstigi af sakborningum og vitnum.


27. gr.

     Við 27. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     2. Ráðherra ákveður á hverjum tíma í samráði við ríkislögreglustjóra, að fengnum tillögum héraðssaksóknara, fjölda lögreglumanna hjá embætti héraðssaksóknara.

28. gr.

     35. gr. laganna orðast svo:
     1. Kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans skal beina til héraðssaksóknara og fer hann með rannsókn málsins, sbr. þó 2. mgr.
     2. Kæru á hendur starfsmanni héraðssaksóknara fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans skal beina til ríkissaksóknara. Við meðferð slíkra mála getur ríkissaksóknari beitt þeim heimildum sem lögregla hefur endranær. Lögreglu ber að veita ríkissaksóknara aðstoð við rannsókn mála samkvæmt þessari málsgrein eftir því sem óskað er.

III. KAFLI
Gildistökuákvæði o.fl.

29. gr.

Gildistaka. Brottfall laga um embætti sérstaks saksóknara.
     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2016. Þó öðlast ákvæði til bráðabirgða og ákvæði 22. gr. og 23. gr. gildi 15. júlí 2015.
     Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um embætti sérstaks saksóknara, nr. 135/2008, með síðari breytingum.
     Við gildistöku laga þessara tekur héraðssaksóknari við rannsókn, ákærumeðferð og saksókn í öllum þeim málum sem embætti sérstaks saksóknara fer með. Ákveði ríkissaksóknari ekki annað tekur héraðssaksóknari á sama tíma við rannsókn, ákærumeðferð og saksókn í öllum þeim málum sem ríkissaksóknari eða lögreglustjórar fara með, að því leyti sem þessi verkefni heyra undir héraðssaksóknara eftir gildistöku laganna. Jafnframt tekur embætti héraðssaksóknara við eignum og skuldbindingum embættis sérstaks saksóknara. Sama gildir um ónýttar fjárheimildir eða skuldir í fjárlögum fyrir árið 2015.

30. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
  1. Almenn hegningarlög, nr. 19/1940, með síðari breytingum:
    1. 9. tölul. 1. mgr. 70. gr. laganna orðast svo: Hvort hann hefur veitt af sjálfsdáðum aðstoð eða upplýsingar sem hafa verulega þýðingu við að upplýsa brot hans, aðild annarra að brotinu eða önnur brot.
    2. Við 9. tölul. 1. mgr. 74. gr. laganna bætist: eða veitir af sjálfsdáðum aðstoð eða upplýsingar sem hafa verulega þýðingu við að upplýsa brot hans, aðild annarra að brotinu eða önnur brot.
  2. Lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum: Í stað orðanna „embætti sérstaks saksóknara“ í 1. málsl. 84. gr. laganna kemur: héraðssaksóknara.
  3. Lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum: Í stað orðanna „embætti sérstaks saksóknara“ í 3. málsl. 5. mgr. 26. gr. laganna kemur: héraðssaksóknara; og í stað orðanna „embættis sérstaks saksóknara“ í 7. mgr. 41. gr. laganna kemur: héraðssaksóknara.
  4. Lög um bókhald, nr. 145/1994, með síðari breytingum: Í stað orðanna „Embætti sérstaks saksóknara“ í 1. málsl. 1. mgr. 41. gr. laganna kemur: Héraðssaksóknari; og í stað orðanna „embættis sérstaks saksóknara“ í 4. mgr. sömu greinar kemur: héraðssaksóknara.
  5. Lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, með síðari breytingum: Í stað orðanna „Embætti sérstaks saksóknara“ í 1. málsl. 4. mgr. 20. gr. laganna kemur: Héraðssaksóknari.
  6. Lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, með síðari breytingum: Í stað orðanna „embættis sérstaks saksóknara“ í 2. mgr. 16. gr. a laganna kemur: héraðssaksóknara.
  7. Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum: Í stað orðanna „embætti sérstaks saksóknara“ í 3. mgr. 97. gr. laganna kemur: héraðssaksóknara.
  8. Lög um ársreikninga, nr. 3/2006, með síðari breytingum: Í stað orðanna „Embætti sérstaks saksóknara“ í 1. málsl. 1. mgr. 126. gr. laganna kemur: Héraðssaksóknari; og í stað orðanna „embættis sérstaks saksóknara“ í 7. mgr. sömu greinar kemur: héraðssaksóknara.


Ákvæði til bráðabirgða.
     Frá 15. júlí 2015 og fram til 1. janúar 2016 skal móttaka tilkynninga á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka vera hjá embætti sérstaks saksóknara.
     Heimilt er að bjóða þeim starfsmönnum sem starfað hafa að verkefnum peningaþvættisskrifstofu ríkislögreglustjóra, sem færð verða yfir til embættis sérstaks saksóknara, starf hjá embættinu. Við ráðstöfun starfa samkvæmt þessu ákvæði þarf ekki að gæta að skyldu til þess að auglýsa laus störf til umsóknar, sbr. 7. gr. laga nr. 70/1996. Skal embætti sérstaks saksóknara taka við þeim réttindum og skyldum sem starfsmenn hafa áunnið sér, þ.m.t. samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996.

Samþykkt á Alþingi 30. júní 2015.