Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 846, 145. löggjafarþing 362. mál: höfundalög (EES-reglur, lengri verndartími hljóðrita).
Lög nr. 11 1. mars 2016.

Lög um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum (lenging verndartíma hljóðrita).


1. gr.

     43. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Höfundaréttur helst uns 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir lát höfundar. Nú er um verk að ræða sem ákvæði 7. gr. taka til og skal þá telja greint 70 ára tímabil frá næstu áramótum eftir lát þess höfundar sem lengst lifir.
     Höfundaréttur að tónverki með texta, þar sem bæði texti og tónverk eru samin sérstaklega fyrir hlutaðeigandi tónverk með texta, helst uns 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir andlát þess sem lengst lifir af eftirtöldum aðilum:
  1. Textahöfundar.
  2. Tónskáld.

     Höfundaréttur að kvikmyndaverkum helst uns 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir andlát þess sem lengst lifir af eftirgreindum höfundum kvikmyndaverks:
  1. Aðalleikstjórar.
  2. Handritshöfundar, þ.m.t. höfundar samtalstexta.
  3. Tónhöfundar sé tónlistin sérstaklega samin til afnota í kvikmyndaverkum.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna:
  1. 2. málsl. 4. tölul. 1. mgr. fellur brott.
  2. Á eftir 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  3.      Ef upptaka listflutnings skv. 1. mgr., sem ekki er hljóðrit, er gefin út eða gerð aðgengileg almenningi innan þess tímamarks sem þar er tiltekið varir verndin þó uns 50 ár eru liðin frá því sem fyrr gerist, lok útgáfuárs eða þegar upptaka var gerð aðgengileg almenningi.
         Ef hljóðrit listflutnings skv. 1. mgr. er gefið út eða gert aðgengilegt almenningi innan þess tíma sem þar er nefndur varir verndin þó uns 70 ár eru liðin frá því sem fyrr gerist, lok útgáfuárs eða þegar upptaka var gerð aðgengileg almenningi.

3. gr.

     Í stað orðanna „50 ár“ í 2. málsl. 1. mgr. 46. gr. laganna kemur: 70 ár.

4. gr.

     Á eftir 47. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, 47. gr. a – 47. gr. c, svohljóðandi:
     
     a. (47. gr. a.)
     Listflytjandi getur sagt upp samningi um framsal réttinda til hljóðrits af listflutningi sínum til framleiðanda hljóðrits þegar 50 ár eru liðin frá útgáfu þess eða, ef hljóðrit hefur ekki verið gefið út, þegar 50 ár eru liðin frá að það var birt, ef framleiðandinn gerir ekki fullnægjandi ráðstafanir til:
  1. að bjóða eintök af hljóðriti í sölu í nægilegu magni eða
  2. að gera hljóðritið aðgengilegt almenningi á þann hátt að hver og einn geti haft aðgang að því á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs, sbr. 1. tölul. 4. mgr. 2. gr.

     Um uppsögn listflytjanda á samningi skv. 1. mgr. gildir eins árs uppsagnarfrestur. Uppsögn samnings tekur gildi að liðnum uppsagnarfresti hafi framleiðandi hljóðrits ekki gert viðeigandi ráðstafanir skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. Ógilt er afsal flytjanda á uppsagnarrétti samkvæmt þessari grein.
     Við uppsögn samnings skv. 1. mgr. falla niður réttindi framleiðanda skv. 46. gr. til viðkomandi hljóðrits.
     
     b. (47. gr. b.)
     Hafi listflytjandi framselt framleiðanda hljóðrits rétt sinn til hljóðrits listflutnings fyrir eingreiðslu á hann rétt á árlegri viðbótarþóknun frá framleiðanda hljóðrits fyrir hvert heilt ár eftir að 50 ár eru liðin frá útgáfu hljóðritsins eða, ef hljóðrit hefur ekki verið gefið út, þegar 50 ár eru liðin frá því að hljóðritið var gert aðgengilegt almenningi. Ógilt er afsal listflytjanda á rétti til árlegrar viðbótarþóknunar.
     Framleiðandi hljóðrits skal leggja til hliðar fjárhæð til greiðslu viðbótarþóknunar skv. 1. mgr. Samanlögð fjárhæð sem lögð er til hliðar skal samsvara 20% af tekjum framleiðandans fyrir næstliðið ár. Viðbótarþóknun skv. 1. mgr. reiknast af tekjum framleiðanda hljóðrits vegna eintakagerðar, dreifingar eintaka og því að hljóðrit er gert aðgengilegt almenningi frá því að 50 ár eru liðin frá útgáfu hljóðrits eða, ef hljóðrit hefur ekki verið gefið út, þegar 50 ár eru liðin frá því að hljóðrit var gert aðgengilegt almenningi.
     Umsýsla og útborgun viðbótarþóknunar skv. 1. mgr. er á hendi samtaka rétthafa sem hlotið hafa viðurkenningu ráðuneytisins.
     Eftir kröfu frá listflytjanda eða viðurkenndum samtökum skv. 3. mgr. ber framleiðanda hljóðrits að láta í té allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að tryggja greiðslu árlegrar viðbótarþóknunar.
     Ráðherra setur nánari reglur um málsmeðferð vegna viðurkenningar samtaka skv. 3. mgr.
     
     c. (47. gr. c.)
     Hafi listflytjandi framselt framleiðanda hljóðrits rétt sinn á hljóðriti listflutnings og samið um reglulegar greiðslur skal réttur til árlegrar viðbótarþóknunar ekki rýrður vegna fyrirframgreiðslu eða samningsbundins frádráttar þegar 50 ár eru liðin frá útgáfu hljóðrits eða, ef hljóðrit hefur ekki verið gefið út, þegar 50 ár eru liðin frá því að hljóðrit var gert aðgengilegt almenningi.

5. gr.

     Í stað orðanna „sbr. 3. mgr. 45. gr.“ í 59. gr. laganna kemur: sbr. 5. mgr. 45. gr.

6. gr.

     Á eftir 2. mgr. 63. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Samningar listflytjanda um framsal réttinda á hljóðriti listflutnings sem gerðir eru fyrir 1. nóvember 2013 halda gildi sínu eftir það tímamark í þeim tilvikum þegar verndartími þess telst útrunninn samkvæmt eldri reglum nema á annan veg sé mælt fyrir um í samningi.
     Að því marki sem samningar um framsal réttinda listflytjanda á hljóðriti sem gerðir eru fyrir 1. nóvember 2013 veita listflytjanda rétt til reglulegra greiðslna er heimilt að semja um þær að nýju þegar 50 ár eru liðin frá útgáfu hljóðrits eða, ef hljóðrit hefur ekki verið gefið út, þegar 50 ár eru liðin frá því að hljóðrit var gert aðgengilegt almenningi.

7. gr.

     Á eftir 65. gr. laganna kemur ný grein, 65. gr. a, svohljóðandi:
     Með lögum þessum eru leidd í lög ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2011/77/ESB frá 27. september 2011 um breytingu á tilskipun 2006/116/EB um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda. Tilskipunin var tekin upp í XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2013 frá 3. maí 2013 sem tók gildi 1. ágúst 2014.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 1. gr. laga þessara gildir um tónverk með texta þar sem tónverk eða texti nýtur verndar í aðildarríki EES-svæðisins 1. nóvember 2013 og um tónverk með texta sem verða til eftir það tímamark. Ákvæði 1. gr. hefur ekki áhrif á hagnýtingu tónverka með texta sem hefur orðið til fyrir 1. nóvember 2013.
     Ákvæði 3.–6. gr. laga þessara gilda um réttindi listflytjenda og framleiðenda til hljóðrita sem í gildi voru 1. nóvember 2013 og sem verða til eftir það tímamark.

Samþykkt á Alþingi 16. febrúar 2016.