Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 969, 145. löggjafarþing 369. mál: styrkir vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi (miðastyrkir).
Lög nr. 14 23. mars 2016.

Lög um styrki vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi (miðastyrkir).


1. gr.

     Heimilt er að greiða sérstaka styrki, miðastyrki, úr ríkissjóði vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi ef myndirnar eru unnar og kostaðar af framleiðendum með staðfestu á Íslandi eða framleiðendum með staðfestu í EES-ríki. Heimildin tekur einnig til framleiðslu kvikmynda á íslensku sem framleiddar eru sem samstarfsverkefni slíkra framleiðenda og erlendra aðila. Styrkir eru greiddir vegna sýninga á árunum 2012–2016. Skal heildarandvirði miðastyrkja aldrei nema hærri fjárhæð en ákveðið er af Alþingi í fjárlögum hvers árs.

2. gr.

     Með kvikmynd á íslensku er átt við að frumútgáfa kvikmyndarinnar sem sýnd hefur verið í kvikmyndahúsi hér á landi sé með íslensku tali.

3. gr.

     Kvikmyndamiðstöð Íslands annast meðferð umsókna og greiðslu miðastyrkja.
     Miðastyrkur er greiddur eftir að viðkomandi kvikmynd hefur verið sýnd í kvikmyndahúsi hér á landi. Framleiðandi sækir um miðastyrk.

4. gr.

     Miðastyrkur til hverrar kvikmyndar skal vera í hlutfalli við heildarandvirði seldra aðgöngumiða að sýningum á viðkomandi kvikmynd í kvikmyndahúsum hér á landi.
     Kvikmyndamiðstöð Íslands skal við ákvörðun miðastyrks taka tillit til annarra styrkja sem viðkomandi kvikmynd hefur notið eða mun njóta til að gæta þess að heildarfjárhæð styrkja verði ekki umfram þær viðmiðanir sem kveðið er á um í lögum og alþjóðlegum skuldbindingum.

5. gr.

     Við framkvæmd laga þessara skal gæta ákvæða reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1407/2013 um beitingu 107. og 108. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins gagnvart minniháttaraðstoð sem birt var í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 36 12. júní 2014, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 98/2014.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara, þar á meðal reglur um meðferð umsókna, umsóknarfrest, tilhögun greiðslu og nánari skilyrði fyrir greiðslu.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og falla úr gildi 31. desember 2016. Þó má greiða miðastyrki fyrir sýningar ársins 2016 vegna umsókna sem berast fyrir 1. júlí 2017.

Samþykkt á Alþingi 9. mars 2016.