Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1182, 145. löggjafarþing 156. mál: þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið (notkun fánans við markaðssetningu á vöru og þjónustu).
Lög nr. 28 29. apríl 2016.

Lög um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum (notkun fánans við markaðssetningu á vöru og þjónustu).


1. gr.

     Við 8. gr. laganna bætist: sbr. þó 11. mgr. 12. gr. um eftirlit Neytendastofu.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
  1. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Óheimilt er að nota fánann í firmamerki.
  2. Í stað 3. og 4. mgr. koma sex nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  3.      Heimilt er að nota hinn almenna þjóðfána í merki, sbr. þó 2. mgr., eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu sé vara eða starfsemi sú sem í hlut á íslensk og fánanum ekki óvirðing gerð.
         Vara telst íslensk ef hún er:
    1. framleidd hér á landi úr innlendu hráefni,
    2. framleidd hér á landi úr innfluttu hráefni að hluta eða öllu leyti, enda hafi hún hlotið nægilega aðvinnslu hérlendis.

         Þrátt fyrir b-lið 4. mgr. telst vara ekki íslensk ef hún er framleidd úr innfluttu hráefni sem telst vera einkennandi hluti vörunnar og er eðlislíkt:
    1. búvöru, þ.m.t. afurðum eldisfiska, sem er ræktuð hér á landi,
    2. vöru sem er framleidd hér á landi á garðyrkjubýli, gróðrarstöð eða garðyrkjustöð,
    3. nytjastofnum sjávar sem veiddir eru af íslenskum skipum innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi.

         Hönnunarvara telst íslensk ef hún er hönnuð af íslenskum aðila undir íslensku vörumerki þótt hún sé framleidd erlendis úr erlendu hráefni, enda sé ekki um að ræða hráefni sem er eðlislíkt innlendu hráefni sem telst hafa séríslenskan uppruna, einkenni eða eiginleika. Ef hönnunarvara er framleidd erlendis skal framleiðsluland vörunnar jafnframt koma fram.
         Hugverk telst íslenskt ef það er samið eða skapað af íslenskum aðila.
         Neytendastofa veitir leyfi fyrir notkun þjóðfánans í vörumerki sem skal skrásetja hjá Einkaleyfastofunni.
  4. Við bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
  5.      Neytendastofa fer með eftirlit með notkun almenna þjóðfánans skv. 2.–10. mgr. Um málsmeðferð Neytendastofu, úrræði og viðurlög vegna brota á tilgreindum ákvæðum og um kærurétt til áfrýjunarnefndar neytendamála fer að öllu leyti eftir ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
         Ráðherra sem fer með málefni neytendamála er heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um skilyrði fyrir notkun fánans samkvæmt ákvæði þessu, svo sem um hvað teljist nægileg aðvinnsla, um mat á því hvað teljist einkennandi hluti vöru og eðlislíkt hráefni og um skilgreiningu framleiðslulands.


3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 18. apríl 2016.