Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1229, 145. löggjafarþing 561. mál: fjármálafyrirtæki (heimildir Fjármálaeftirlitsins til að takmarka tjón á fjármálamarkaði).
Lög nr. 34 13. maí 2016.

Lög um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum (heimildir Fjármálaeftirlitsins til að takmarka tjón á fjármálamarkaði).


1. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða VI í lögunum orðast svo:
     Í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði getur Fjármálaeftirlitið gripið til sérstakra ráðstafana í samræmi við fyrirmæli þessa ákvæðis telji það þörf á vegna sérstakra aðstæðna eða atvika. Með sérstökum aðstæðum eða atvikum er átt við sérstaka fjárhagserfiðleika og/eða rekstrarerfiðleika hjá fjármálafyrirtæki, þar á meðal ef líkur eru á að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum eða kröfuhöfum, forsendur afturköllunar starfsleyfis eru líklega fyrir hendi eða líkur standa til að það geti ekki uppfyllt kröfur um lágmark eigin fjár og önnur úrræði Fjármálaeftirlitsins eru ekki líkleg til að bera árangur. Þá er með sérstökum aðstæðum einnig átt við að fjármálafyrirtæki hafi óskað eftir eða fengið heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings.
     Við aðstæður eða atvik sem um ræðir í 1. mgr. getur Fjármálaeftirlitið boðað til hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda. Fulltrúi Fjármálaeftirlitsins skal stýra fundi og hefur hann málfrelsi og tillögurétt. Fjármálaeftirlitið er við þessar aðstæður ekki bundið af ákvæðum hlutafélagalaga eða samþykkta fjármálafyrirtækis um fundarboðun eða fresti til fundarboðunar eða tillögugerðar til breytinga á samþykktum.
     Séu aðstæður mjög knýjandi getur Fjármálaeftirlitið tekið yfir vald hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda í því skyni að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir, þar á meðal að takmarka ákvörðunarvald stjórnar, víkja stjórn frá að hluta til eða í heild sinni, taka yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta eða ráðstafa slíku fyrirtæki í heild eða að hluta, meðal annars með samruna þess við annað fyrirtæki. Við slíka ráðstöfun gilda hvorki ákvæði laga um verðbréfaviðskipti um tilboðsskyldu né ákvæði laga þessara um auglýsingu samruna fjármálafyrirtækja í Lögbirtingablaði. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að framselja öll réttindi að því marki sem nauðsynlegt er í slíkum tilfellum. Verði það niðurstaða Fjármálaeftirlitsins að samruni viðkomandi fjármálafyrirtækis við annað tryggi best þá hagsmuni sem í húfi eru gilda ákvæði samkeppnislaga og samrunaákvæði laga þessara ekki um þá ráðstöfun. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um yfirtöku á rekstri fjármálafyrirtækis skal tilkynnt stjórn þess og rökstudd skriflega. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynninguna opinberlega. Starfræki fyrirtækið útibú eða þjónustustarfsemi í öðru ríki skal tilkynningin send lögbærum eftirlitsaðilum í því ríki. Víki Fjármálaeftirlitið stjórn fjármálafyrirtækis í heild frá störfum skal því þegar í stað skipuð bráðabirgðastjórn. Ákvæði 100. gr. a gilda að öðru leyti um slíka stjórn og störf hennar. Ef nauðsyn krefur getur Fjármálaeftirlitið takmarkað eða bannað ráðstöfun fjármuna og eigna fjármálafyrirtækis. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka í sínar vörslur þær eignir sem mæta eiga skuldbindingum fjármálafyrirtækis og láta meta verðmæti eigna og ráðstafa þeim til greiðslu áfallinna krafna eftir því sem þörf krefur. Þá er Fjármálaeftirlitinu heimilt að rifta sölu eigna sem átt hefur sér stað allt að mánuði áður en það greip til sérstakra ráðstafana samkvæmt þessu ákvæði. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um framangreinda málsmeðferð og ákvarðanatöku Fjármálaeftirlitsins. Ríkissjóður ber ábyrgð á kostnaði af framkvæmd aðgerða Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þessa ákvæðis.
     Ákvæði þetta fellur úr gildi 31. desember 2017.

2. gr.

     Lög þessi taka þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 3. maí 2016.