Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1361, 145. löggjafarþing 653. mál: rannsóknarnefndir.
Lög nr. 47 7. júní 2016.

Lög um breytingu á lögum nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir (skipun rannsóknarnefnda o.fl.).


1. gr.

     1. gr. laganna orðast svo:
     Forseti Alþingis skipar rannsóknarnefnd á vegum Alþingis ef þingið samþykkir ályktun þar um til þess að rannsaka málsatvik í mikilvægu máli sem varðar almenning.
     Nefnd sú sem fer með eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu leggur mat á og gerir tillögu til Alþingis um hvenær rétt sé að skipa rannsóknarnefnd samkvæmt lögum þessum. Við undirbúning slíkrar tillögu og áður en hún er lögð fram skal sérstaklega leggja mat á tilefni og grundvöll rannsóknar, hvert sé mögulegt umfang hennar og afmörkun og hvort önnur úrræði séu tiltæk. Þá skal nefndin enn fremur leggja mat á fjölda nefndarmanna og hvaða kröfur eigi að gera til faglegrar þekkingar þeirra og áætla kostnað.
     Áður en tillaga um skipun rannsóknarnefndar er lögð fram skal leita umsagnar forseta Alþingis um þau atriði sem tilgreind eru í 2. mgr. Við undirbúning hennar er forseta Alþingis heimilt að leita umsagnar ríkisendurskoðanda og umboðsmanns Alþingis um tillöguna.
     Ef tillaga um skipun rannsóknarnefndar kemur ekki frá þeirri nefnd sem fer með eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu, sbr. 2. mgr., skal, að lokinni fyrri umræðu, vísa henni til þeirrar nefndar til athugunar sem gefur þinginu álit sitt um hana að fenginni umsögn forseta Alþingis, sbr. 3. mgr., áður en greidd eru atkvæði um tillöguna við síðari umræðu.

2. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Fjöldi nefndarmanna skal ákveðinn í ályktun Alþingis. Heimilt er að fela einum einstaklingi rannsókn máls ef rök mæla með því. Forseti Alþingis velur formann og afmarkar umboð nefndar, hvort tveggja í samráði við forsætisnefnd og nefnd þá sem fer með eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu, sbr. 2. mgr. 1. gr. Forfallist nefndarmaður eða ef hann getur ekki af öðrum ástæðum sinnt starfinu getur forseti Alþingis skipað annan mann til þess að taka sæti í nefndinni.
     Formaður rannsóknarnefndar skal vera lögfræðingur. Fari einn maður með rannsókn máls skal hann enn fremur vera lögfræðingur. Hann skal uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara samkvæmt lögum um dómstóla, en að undanskildum ákvæðum um hámarksaldur, sbr. 5. mgr. 31. gr. þeirra laga.
     Sé rannsóknarnefnd falið að meta lögfræðileg atriði sem geta varpað ljósi á það hvort einstaklingar skuli sæta ábyrgð skulu nefndarmenn vera þrír hið minnsta.
     Dómara, sem skipaður er til setu í rannsóknarnefnd, skal veitt leyfi frá störfum dómsins meðan nefndin starfar.
     Opinber starfsmaður, sem skipaður er til setu í rannsóknarnefnd eða starfar fyrir slíka nefnd, á rétt á launalausu leyfi þann tíma sem nefndin starfar.
     Sá sem starfar fyrir rannsóknarnefnd, sbr. 4. og 5. mgr., heldur réttindum sem hann hefur áunnið sér á grundvelli laga eða kjarasamninga og frekari ávinnslu þeirra, þ.m.t. lífeyrisréttindum.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Rannsóknarnefnd getur ráðið starfsmenn sér til aðstoðar. Forseti Alþingis staðfestir ráðningu þeirra og ákveður þeim laun. Hann útvegar rannsóknarnefnd jafnframt annan mannafla og aðbúnað sem er nauðsynlegur við rannsóknina.
  3. Laganúmerið „nr. 70/1996“ í 2. mgr. fellur brott.
  4. Í stað 3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  5.      Forseti Alþingis ákveður nefndarmönnum laun fyrir störf þeirra og önnur starfskjör.
         Kostnaður af starfi rannsóknarnefndar greiðist úr ríkissjóði í samræmi við fjárheimildir hverju sinni.


4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Um sérstakt hæfi nefndarmanna og starfsmanna fer eftir sömu reglum og fram koma í 3. gr. stjórnsýslulaga.
  3. Laganúmerið „nr. 37/1993“ í 3. mgr. fellur brott.


5. gr.

     5. gr. laganna ásamt millifyrirsögn á undan greininni orðast svo:
Verkefni rannsóknarnefndar og tilkynningar.
     Meginhlutverk rannsóknarnefndar er að afla upplýsinga og gera grein fyrir málsatvikum í máli, sbr. 1. mgr. 1. gr. Verkefni rannsóknarnefndar skal skýrt afmarkað í umboði hennar, sbr. 1. mgr. 2. gr.
     Rannsóknarnefnd má fela það verkefni að gefa álit sitt á því hvort til staðar kunni að vera lögfræðileg atriði sem gætu varpað ljósi á hvort tilefni sé til þess að þar til bær stjórnvöld kanni grundvöll ábyrgðar einstaklinga eða lögaðila. Vakni grunur við rannsókn nefndarinnar um að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað tilkynnir hún ríkissaksóknara það sem ákveður hvort rannsaka beri málið í samræmi við lög um meðferð sakamála. Ef nefndin telur að ætla megi að opinber starfsmaður hafi gerst brotlegur við starfsskyldur sínar samkvæmt ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eða ákvæðum annarra laga sem gilda um störf hans, skal hún tilkynna viðkomandi forstöðumanni þar um og hlutaðeigandi ráðuneyti.
     Ekki er skylt að gefa viðkomandi kost á að tjá sig sérstaklega um þá ákvörðun rannsóknarnefndar að senda mál til ríkissaksóknara eða tilkynna það forstöðumanni eða ráðuneyti, sbr. 2. mgr. Upplýsingar um slíkar tilkynningar skulu birtar í skýrslu rannsóknarnefndar.
     Rannsóknarnefnd, sem gefa skal álit sitt á stjórnsýslu ráðherra, sbr. 2. mgr., verður ekki falið að meta ábyrgð ráðherra samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð. Henni er þó heimilt að vekja athygli nefndar sem fer með eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu á málsatvikum sem kunna að gefa Alþingi tilefni til að kanna grundvöll ábyrgðar ráðherra.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
  1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Formaður stýrir starfi rannsóknarnefndar.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Rannsóknarnefnd skal beita heimildum sínum til öflunar gagna og upplýsinga skv. 7. og 8. gr. í þágu lögmætra markmiða sem tengjast rannsókn nefndarinnar og gæta þess að ganga ekki lengra en nauðsyn krefur.


7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
  1. Laganúmerið „nr. 88/2008“ í 4. mgr. fellur brott.
  2. Í stað orðanna „3. og 5. mgr.“ í 7. mgr. kemur: 2. mgr.
  3. Í stað orðanna „3. mgr.“ í 7. mgr. kemur: 4. mgr.
  4. Í stað orðanna „3. og 7. mgr.“ í 8. mgr. kemur: 2. mgr.


8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „3. og 7. mgr.“ í 1., 2. og 3. mgr. kemur: 2. mgr.
  2. Laganúmerin „nr. 88/2008“ í 4. mgr. og „nr. 19/1940“ í 6. mgr. falla brott.


9. gr.

     Í stað orðanna „skv. 18. gr. laga nr. 70/1996, sbr. 136. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940“ í 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: skv. 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 136. gr. almennra hegningarlaga.

10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
  1. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður sem verður 1. málsl., svohljóðandi: Rannsóknarnefnd skal veita forseta Alþingis upplýsingar um rekstur og útgjöld rannsóknarnefndar.
  2. Á eftir orðunum „Rannsóknarnefnd getur“ í 2. mgr. kemur: enn fremur.


11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna.
  1. Í stað orðanna „eftirlitshlutverk Alþingis gagnvart“ í 2. mgr. kemur: eftirlit Alþingis með.
  2. Við 3. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Formaður rannsóknarnefndar skal þó afhenda forseta Alþingis reikningslegt uppgjör yfir störf rannsóknarnefndar og árita það innan þriggja mánaða frá því að nefndin lýkur störfum. Formaður rannsóknarnefndar ber ábyrgð á fjárreiðum nefndarinnar og er í fyrirsvari fyrir þær þar til endurskoðun á reikningslegu uppgjöri hefur farið fram. Hann ber jafnframt ábyrgð á frágangi skjala rannsóknarnefndar til varðveislu, sbr. 4. mgr.
  3. 2. málsl. 4. mgr. orðast svo: Um aðgang að þeim fer samkvæmt ákvæðum 39. gr. laga um opinber skjalasöfn.

12. gr.

     Orðin „nr. 19/1940, með síðari breytingum“ í 13. gr. a laganna sem verður 14. gr. þeirra falla brott.

13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna sem verður 15. gr. þeirra:
  1. Laganúmerið „nr. 77/2000“ í 1. mgr. fellur brott.
  2. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Ákvæði 1. mgr. gilda einnig frá því að rannsóknarnefnd hefur tilkynnt ákæruvaldi um grun um að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað, sbr. 2. mgr. 5. gr., þar til ákæruvald hefur ákveðið að taka mál viðkomandi til meðferðar sem sakamál. Hafi mál verið fellt niður skulu þeir sem rannsókn beinist að njóta réttinda samkvæmt ákvæðum 18.–21. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og 14. gr. upplýsingalaga.
  4. Í stað laganúmersins „nr. 77/2000“ tvívegis í 2. mgr. kemur: um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
  5. Í stað tilvísunarinnar „9. gr.“ í 2. mgr. kemur: 14. gr.


14. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Er lög þessi hafa öðlast gildi skal stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjalla um ályktun Alþingis frá 7. nóvember 2012, um rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., í því skyni að tryggja að afmörkun og umfang rannsóknarinnar verði í samræmi við ákvæði laga þessara. Enn fremur skal nefndin tryggja að undirbúningur rannsóknarinnar fari fram skv. 2. og 3. mgr. 1. gr. Að lokinni umfjöllun nefndarinnar og eftir atvikum Alþingis skipar forseti Alþingis nefndina og afmarkar nánar umboð hennar í samráði við forsætisnefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sbr. 1. mgr. 2. gr.

15. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 26. maí 2016.