Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1681, 145. löggjafarþing 659. mál: meðferð sakamála (skilyrði fyrir beitingu símahlustunar).
Lög nr. 103 26. september 2016.

Lög um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum (skilyrði fyrir beitingu úrræða skv. XI. kafla).


1. gr.

     2. mgr. 83. gr. laganna orðast svo:
     Auk þess sem segir í 1. mgr. verða þau skilyrði að vera fyrir hendi svo að gripið verði til aðgerða skv. 81. gr. og 1. mgr. 82. gr. að rannsókn beinist að broti sem varðað getur að lögum sex ára fangelsi og að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess. Með sama skilorði verður gripið til þessara aðgerða ef rannsókn beinist að broti á 109. gr., 175. gr. a, 206. gr., 210. gr. a, 210. gr. b, 226. gr., 1. mgr. 232. gr., 233. gr. og 264. gr. a almennra hegningarlaga.

2. gr.

     Á eftir 1. mgr. 84. gr. laganna kemur ný málsgrein, 2. mgr., sem orðast svo:
     Þegar dómara hefur borist krafa um aðgerð og hann fallist á að hún hljóti meðferð fyrir dómi án þess að sá sem hún beinist að verði kvaddur á dómþing, sbr. 1. mgr. 103. gr. og 1. mgr. 104. gr., skipar hann lögmann til að gæta hagsmuna þess sem aðgerð beinist að. Áður en skipunin tekur gildi skal lögmaðurinn undirrita drengskaparheit um að hann muni gæta þagmælsku um allt það sem hann kemst að við rækslu starfans, þar á meðal gagnvart þeim sem hann gætir hagsmuna fyrir. Í samræmi við hlutverk sitt á hann rétt á aðgangi að þeim gögnum sem fylgja kröfu og til að tjá sig skv. 1. mgr. 105. gr. eftir að hafa kynnt sér þau. Ákvæði 2., 4. og 5. mgr. 33. gr., 2. mgr. 34. gr. og 38. gr. gilda um skipun og hæfi manns til þessa starfa, svo og afturköllun á skipun hans og þóknun fyrir starfann, eftir því sem við á. Ef krafa um aðgerð er tekin til greina getur lögmaðurinn kært úrskurð dómara til æðra dóms eftir því sem kveðið er á um í 193. gr.

3. gr.

     85. gr. laganna orðast svo:
     Upptökum af símtölum, hljóðupptökum, myndum eða öðrum upplýsingum, sem aflað er á þann hátt er greinir í 80.–82. gr., skal eyða jafnskjótt og þeirra er ekki lengur þörf. Sé mál höfðað á grundvelli rannsóknar er þó óheimilt að eyða framangreindum gögnum fyrr en endanlegur dómur hefur verið kveðinn upp í málinu. Sama gildir um afrit eða endurrit af þessum upplýsingum. Ef gögnin hafa að geyma samtöl eða önnur samskipti sakbornings við verjanda sinn, svo og upplýsingar sem 2. mgr. 119. gr. tekur til, skal samt sem áður eyða þeim þegar í stað.
     Þegar aðgerð skv. 80.–82. gr. er lokið skal lögreglustjóri sjá um að þeim sem aðgerð beindist að, svo og eiganda eða umráðamanni fjarskiptatækis, húsnæðis eða farartækis, sé tilkynnt um aðgerðina svo fljótt sem verða má, enda sé tryggt að það skaði ekki frekari rannsókn málsins. Þó skal aldrei fresta tilkynningu um aðgerð lengur en í tólf mánuði frá því að henni lauk.
     Ríkissaksóknari hefur eftirlit með því að gögnum sé eytt og að tilkynnt sé um lok aðgerðar skv. 1. og 2. mgr. Setur hann reglur um hvernig eftirlitinu skuli háttað og skal þar m.a. koma fram hvernig tryggt verði að unnt sé að upplýsa eftir á hver eða hverjir hafi haft aðgang að upplýsingum sem aflað hefur verið með aðgerð skv. 80.–82. gr. Ríkissaksóknari skal árlega gefa út skýrslu um framkvæmd eftirlitsins og beitingu aðgerða skv. 80.–82. gr.

4. gr.

     Á eftir 1. málsl. 2. mgr. 194. gr. laganna kemur nýr málsliður sem orðast svo: Ef skipaður hefur verið lögmaður til að gæta hagsmuna gagnaðilans skv. 2. mgr. 84. gr. skal þó tilkynna þeim lögmanni um kæruna og kemur hann fram fyrir hönd gagnaðilans við meðferð kærumálsins.

5. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2017.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Við gildistöku laga þessara skal ráðherra láta kanna og greina leiðir í því skyni að veita lögreglu aðhald við rannsókn mála, svo sem öflun og meðferð fjarskiptaupplýsinga, sbr. 80. gr. laga um meðferð sakamála, símahlustun, sbr. 81. gr., upptöku á hljóðum og merkjum og ljósmyndun, sbr. a- og b-lið 1. mgr. 82. gr., notkun eftirfararbúnaðar, sbr. c-lið 1. mgr. 82. gr., og við hvers kyns eftirlit af hálfu lögreglu, þar með talið hvað varðar stafræn gögn og lýsigögn (metadata). Hafa skal hliðsjón af fyrirkomulagi erlendis við þessa greiningarvinnu. Fulltrúar þingflokka skulu hafa aðkomu að vinnunni og þeir upplýstir um hana stig af stigi. Stefna skal að því að tillögur verði kynntar Alþingi í lok árs 2017.

Samþykkt á Alþingi 19. september 2016.