Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 82, 146. löggjafarþing 6. mál: Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (breyting á A-deild sjóðsins).
Lög nr. 127 29. desember 2016.

Lög um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, með síðari breytingum (breyting á A-deild sjóðsins).


1. gr.

     2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
     Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins starfar í þremur deildum, A-deild og séreignardeild, sem starfa á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og laga þessara þegar við á, og B-deild, sem starfar á grundvelli þessara laga auk laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða eftir því sem við á. Deildirnar skipta með sér rekstrarkostnaði í hlutfalli við umfang hverrar deildar í rekstri sjóðsins samkvæmt reglum sem stjórn sjóðsins setur.

2. gr.

     3. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

     II. kafli laganna, A-deild lífeyrissjóðsins, 12.–21. gr., fellur brott.

4. gr.

     Í stað „skv. 4. mgr. 13. gr., sbr. og ákvæði til bráðabirgða II“ í 2. málsl. 5. mgr. 33. gr. laganna kemur: í samþykktum sjóðsins og ákvæði til bráðabirgða XI.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 39. gr. laganna:
  1. Í stað „skv. 15.“ í 1. mgr. kemur: samkvæmt reglum samþykkta A-deildar.
  2. Í stað „4. mgr. 15. gr.“ í 3. mgr. kemur: samþykkta.


6. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða I og II í lögunum falla brott.

7. gr.

     Við lögin bætast sjö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     
     a. (VIII.)
     Frá og með 1. júní 2017 skal A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins starfa á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum, laga þessara eftir því sem við á og samþykkta er fyrir sjóðinn gilda. Stjórn sjóðsins skal aðlaga samþykktir sjóðsins ákvæðum laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lögum þessum eftir því sem við á og leggja þær þannig breyttar fyrir ráðherra til staðfestingar, sbr. 28. gr. laga nr. 129/1997, eigi síðar en 1. apríl 2017.
     
     b. (IX.)
     Ríkissjóður skal eigi síðar en 31. desember 2016 greiða 106,8 milljarða kr. framlag til A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem ætlað er til þess að standa undir lífeyrisauka til sjóðfélaga sem rétt eiga á honum skv. 2. og 3. mgr. Framlagið er ákvarðað á grundvelli tryggingafræðilegrar stöðu A-deildar í lok september 2016 og miðað er við lífslíkur byggðar á reynslu áranna 2010–2014. Greiðsla framlagsins er bundin því skilyrði að tekin verði upp í A-deild aldurstengd réttindaávinnsla og 67 ára lífeyristökualdur.
     Lífeyrisauki er sá mismunur sem er á annars vegar réttindum sjóðfélaga samkvæmt jafnri réttindaávinnslu og 65 ára lífeyristökualdri og hins vegar réttindum sjóðfélaga samkvæmt aldurstengdri réttindaávinnslu og 67 ára lífeyristökualdri. Lífeyrisaukann skal reikna mánaðarlega til réttinda hjá sjóðfélaga. Þó er sjóðnum heimilt að færa lífeyrisauka til réttinda vegna ársins 2017 í lok þess árs.
     Þeir sjóðfélagar sem eru virkir greiðendur á síðustu 12 mánuðum fyrir gildistöku nýrra samþykkta og starfa hjá ríki eða sveitarfélögum skulu ávinna sér rétt til lífeyrisauka á meðan þeir greiða til deildarinnar og starfa hjá áðurnefndum launagreiðendum, sbr. þó 5. mgr.
     Þeir sjóðfélagar sem eru virkir greiðendur á síðustu 12 mánuðum fyrir gildistöku nýrra samþykkta og starfa hjá öðrum launagreiðendum en ríkisaðilum og sveitarfélögum eiga því aðeins rétt á lífeyrisauka að launagreiðandi þeirra hafi samþykkt að greiða sérstakt iðgjald fyrir sjóðfélaga í samræmi við 8. mgr.
     Sjóðfélagi sem greiddi ekki iðgjald til A-deildar síðustu 12 mánuði fyrir gildistöku nýrra samþykkta, án þess þó að formlegu ráðningarsambandi hans og launagreiðanda sem tryggir starfsmenn sína hjá sjóðnum hafi verið slitið, hefur sama rétt til lífeyrisauka og þeir sem falla undir 3. og 4. mgr.
     Falli iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga niður af öðrum ástæðum en segir í 5. mgr. til lengri tíma en tólf mánaða fellur réttur hans til frekari lífeyrisauka niður. Sjóðfélagar sem greiddu ekki iðgjald til sjóðsins á tímabilinu júní 2016 til júní 2017 eiga rétt á greiðslum úr lífeyrisauka hefji þeir á ný greiðslur til sjóðsins eigi síðar en 12 mánuðum eftir gildistöku nýrra samþykkta. Sjóðnum er heimilt að framlengja tímabilið um tólf mánuði vegna náms, veikinda eða fæðingarorlofs sjóðfélaga.
     Þeir sjóðfélagar Brúar lífeyrissjóðs sem rétt eiga á lífeyrisauka hjá Brú skulu eiga rétt á lífeyrisauka hjá A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins skipti þeir um starf og verði sjóðfélagar í A-deild að því tilskildu að ekki hafi liðið lengri tími en tólf mánuðir á milli starfa, sbr. þó einnig 4. mgr. Tilskilið er að sambærilegt ákvæði sé sett í samþykktir Brúar, að breyttu breytanda, og að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Brú lífeyrissjóður geri með sér samkomulag um kostnað við lífeyrisauka vegna sjóðfélaga sem færast milli sjóðanna.
     Launagreiðendur sem ekki eru einkanlega fjármagnaðir með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum eða framlögum skulu greiða ríkissjóði til baka þann hluta af framlagi því sem ríkissjóður greiðir skv. 1. mgr. og fer til þess að greiða lífeyrisauka starfsmanna þessara launagreiðenda. Þessi endurgreiðsla fer fram þannig að launagreiðendur, aðrir en ríkisaðilar í B- og C-hluta ríkisreiknings, greiða sérstakt iðgjald sem standa á undir lífeyrisauka þessara starfsmanna. Iðgjald þetta skal endurskoða árlega í samræmi við tryggingafræðilega athugun og skal ákvörðun um hækkun þess eða lækkun liggja fyrir eigi síðar en 1. október fyrir komandi almanaksár. Ríkisaðilar í B- og C-hluta ríkisreiknings endurgreiða ríkissjóði árlega lífeyrisauka starfsmanna sinna á grundvelli útreiknings Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, enda séu þeir ekki einkanlega fjármagnaðir með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum eða framlögum.
     Nánar skal kveðið á um framkvæmd þessa ákvæðis í samþykktum sjóðsins.
     
     c. (X.)
     Ríkissjóður skal fyrir 31. desember 2016 leggja til 8,4 milljarða kr. í sérstakan varúðarsjóð og skal höfuðstóll hans varðveittur og ávaxtaður af lífeyrissjóðnum. Varúðarsjóður skal aðgreindur frá öðrum fjármunum sem A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fer með og telst ekki með í reiknaðri hreinni eign til greiðslu lífeyris. Árleg ávöxtun varúðarsjóðs er lögð við höfuðstól hans.
     Ráðherra skal skipa þrjá fulltrúa og BSRB, Bandalag háskólamanna og Kennarasamband Íslands þrjá fulltrúa í matshóp sem yfirfer tryggingafræðilega stöðu og ákveður hvort skilyrði fyrir ráðstöfun fjármuna úr varúðarsjóði eru uppfyllt. Komist matshópur ekki að niðurstöðu um nýtingu varúðarsjóðsins skulu aðilar velja sameiginlegan oddamann sem tekur þá sæti í matshópnum.
     Leggja skal mat á stöðu lífeyrisaukasjóðs:
  1. Sé tryggingafræðileg staða lífeyrisaukasjóðs samkvæmt árlegu mati neikvæð um 10% eða meira í fimm ár eða hafi hún haldist neikvæð um a.m.k. 5% samfellt í meira en tíu ár skal leggja höfuðstól varúðarsjóðsins í heild eða að hluta við eignir lífeyrisaukasjóðs, í báðum tilvikum þar til að neikvæðu 5% viðmiði er náð, og fjármunirnir nýttir til að mæta skuldbindingum hans.
  2. Að tuttugu árum liðnum frá stofnun varúðarsjóðs skal leggja höfuðstól hans í heild eða að hluta við eignir lífeyrisaukasjóðs að því marki sem þörf er á til að tryggingafræðileg staða hans verði jákvæð um a.m.k. 2,5%. Það sem eftir kann að standa af höfuðstóli varúðarsjóðs skal endurgreiða ríkissjóði nema ríkið telji að sérstök rök séu fyrir því að ráðstafa eftirstöðvunum til lífeyrisaukasjóðs eða A-deildar.
  3. Komi í ljós að varúðarsjóðurinn geti ekki staðið við hlutverk sitt, þ.e. ef eign sjóðsins dugir ekki til að styðja þannig við lífeyrisaukasjóð að komist verði hjá skerðingu á greiðslum úr honum, skulu launagreiðendur taka upp viðræður við heildarsamtök opinberra starfsmanna um hvernig við því verði brugðist. Í þeim viðræðum skal lagt mat á hvort þær tryggingafræðilegu forsendur sem byggt er á við ákvörðun á framlagi í lífeyrisaukasjóð, svo sem forsendur varðandi útreikning á lífslíkum, hafi leitt til vanmats á fjárþörf sjóðsins. Verði það niðurstaðan skal brugðist við því þannig að markmið um jafn verðmæt réttindi sjóðfélaga séu tryggð.

     
     d. (XI.)
     Starfsmenn, sem eiga eða hefðu átt skylduaðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fyrir 1. júní 2017, skulu eiga rétt til aðildar að A-deild þar til samið hefur verið um lífeyrissjóðsaðild þeirra eða aðildin ákveðin af þar til bærum aðilum. Sama gildir um þá félagsmenn stéttarfélaga sem eiga eða hefðu átt rétt til aðildar að A-deild fyrir 1. júní 2017 án samþykkis einstakra launagreiðenda. Þá skal iðgjald launagreiðenda til A-deildar vegna sjóðfélaga vera 11,5% þar til um annað hefur verið samið í kjarasamningi.
     
     e. (XII.)
     Komi til þess í ljósi tryggingafræðilegrar stöðu A-deildar að rétt sé að skerða eða auka réttindi skulu slíkar breytingar ekki taka til þeirra sem eiga réttindi í A-deild og hafa náð 60 ára aldri fyrir gildistöku nýrra samþykkta. Ekki skal nýta höfuðstól varúðarsjóðs í þessu skyni heldur skal árlega gera upp fjárhagsleg áhrif með samningi A-deildar við ríkissjóð.
     Ákvæði 1. mgr. tekur einnig til örorku- og makalífeyrisþega sem ekki hafa náð 60 ára aldri fyrir gildistöku nýrra samþykkta.
     
     f. (XIII.)
     Auk greiðslu ríkissjóðs á framlagi í lífeyrisaukasjóð greiðir hann eigi síðar en 31. desember 2016 10,418 milljarða kr. til A-deildar LSR til að koma áfallinni stöðu deildarinnar í jafnvægi. Greiðsla framlagsins er bundin því skilyrði að tekin verði upp í A-deild aldurstengd réttindaávinnsla og 67 ára lífeyristökualdur.
     
     g. (XIV.)
     Ríkissjóður ber sjálfskuldarábyrgð á öllum skuldbindingum útgefnum af Lánasjóði íslenskra námsmanna sem Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins tekur við sem greiðslu vegna framlaga samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða IX, X og XIII. Ábyrgð ríkissjóðs gildir uns viðkomandi skuldbinding er að fullu efnd. Um ábyrgð samkvæmt þessu ákvæði gilda ekki ákvæði laga nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir.

8. gr.

     Lög þessi taka gildi 1. júní 2017 að frátöldum a-lið, 1. mgr. b-liðar, 1. mgr. c-liðar og f-lið 7. gr. og 9. gr. sem taka þegar gildi.

9. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     Eftirfarandi breytingar verða á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum:
  1. Við ákvæði til bráðabirgða III í lögunum bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Skuldabréf sem A-deildir Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Brúar lífeyrissjóðs taka við sem greiðslu samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða IX, X og XIII í lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eru undanþegin takmörkunum 2. mgr. 36. gr.
  3. Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
  4.      Þrátt fyrir ákvæði 39. gr. skal iðgjald launagreiðenda til lífeyrissjóða á opinberum vinnumarkaði vera 11,5% vegna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og 12% vegna A-deildar Brúar lífeyrissjóðs fram til 1. júní 2017 og 11,5% frá 1. júní 2017 þar til um annað hefur verið samið í kjarasamningi.
         Stjórn Brúar lífeyrissjóðs skal fyrir 1. júní 2017 aðlaga samþykktir A-deildar sjóðsins með sama hætti og kveðið er á um í ákvæði til bráðabirgða VIII í lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eftir því sem við getur átt, þar á meðal hvað lífeyristökualdur, aldurstengda réttindaávinnslu, lífeyrisaukasjóði og varúðarsjóði varðar, sbr. ákvæði til bráðabirgða IX–XIV í lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.


Ákvæði til bráðabirgða.
     Ráðherra skal skipa starfshóp með fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, heildarsamtaka á almennum og opinberum vinnumarkaði og Samtaka atvinnulífsins sem greini með heildstæðum hætti þörf á því að lífeyristökualdur tiltekinna starfshópa verði lægri en almennt tíðkast. Starfshópurinn skal skila niðurstöðum sínum fyrir árslok 2017.

Samþykkt á Alþingi 22. desember 2016.