Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 284, 146. löggjafarþing 113. mál: dómstólar (nefnd um hæfni dómaraefna, aðsetur Landsréttar).
Lög nr. 10 28. febrúar 2017.

Lög um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 50/2016, með síðari breytingum (nefnd um hæfni dómaraefna, aðsetur Landsréttar).


1. gr.

     Í stað „1. júlí“ í 1. málsl. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum kemur: 1. ágúst.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum:
  1. Í stað „1. júní“ í 1. mgr. kemur: 1. júlí.
  2. Við 1. mgr. bætast þrír nýir málsliðir er hljóða svo: Nefnd skv. 4. gr. a laga um dómstóla, nr. 15/1998, skal meta hæfni umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn og láta ráðherra í té umsögn um umsækjendur í samræmi við 2. mgr. þeirrar greinar og reglur sem um nefndina gilda. Óheimilt er ráðherra að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Frá þessu má þó víkja ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægir að mati dómnefndar öllum skilyrðum 2. og 3. mgr. 21. gr. laga þessara.
  3. Í stað „20. júní“ í 3. mgr. kemur: 20. júlí.
  4. Í stað „1. júlí“ í 4. mgr. kemur: 1. ágúst.


3. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er hljóðar svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. getur Landsréttur haft aðsetur utan Reykjavíkur fram til 1. janúar 2022.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 27. febrúar 2017.