Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 869, 148. löggjafarþing 109. mál: Samgöngustofa, stjórnsýslustofnun samgöngumála (birting alþjóðlegra reglna á sviði siglinga).
Lög nr. 25 7. maí 2018.

Lög um breytingu á lögum um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012 (birting alþjóðlegra reglna á sviði siglinga).


1. gr.

     Á eftir 9. gr. laganna kemur ný grein, 9. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Birting alþjóðlegra reglna á sviði siglinga.
     Viðaukar og kóðar við alþjóðasamninga á sviði siglinga, sem Ísland er aðili að, skulu birtir á vef Samgöngustofu, enda hafi meginefni viðkomandi alþjóðasamninga verið birt í C-deild Stjórnartíðinda. Einnig skal birta á vef Samgöngustofu dreifibréf og leiðbeiningarreglur sem Alþjóðasiglingamálastofnunin eða önnur alþjóðastofnun gefur út til nánari skýringar á framkvæmd viðkomandi alþjóðasamninga. Heimilt er að birta eingöngu erlendan frumtexta af viðaukum, kóðum, dreifibréfum og leiðbeiningarreglum.
     Við birtingu skv. 1. mgr. skal útgáfudagur tilgreindur. Fyrirmælum sem felast í viðaukum, kóðum, dreifibréfum og leiðbeiningarreglum skal ekki beitt fyrr en birting hefur farið fram á vef Samgöngustofu, nema þau geymi ákvæði algerlega einkamálaeðlis og aðilar hafi komið sér saman um að skipti þeirra fari eftir óbirtum fyrirmælum. Fyrirmælin skulu binda alla frá og með deginum eftir birtingu þeirra á vef Samgöngustofu ef þau geyma ekki aðrar ákvarðanir um gildistöku sína.
     Þeim sem þess óska skal gefinn kostur á að fá sendar tilkynningar frá Samgöngustofu þegar birtir eru nýir viðaukar eða kóðar, auk dreifibréfa og leiðbeiningarreglna, eða þeim breytt.
     Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um efni þessarar greinar í reglugerð.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 26. apríl 2018.