Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1707, 149. löggjafarþing 255. mál: réttur barna sem aðstandendur.
Lög nr. 50 18. júní 2019.

Lög um breytingu á ýmsum lögum vegna réttar barna sem aðstandenda.


I. KAFLI
Breyting á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, með síðari breytingum.

1. gr.

     Á eftir 27. gr. laganna kemur ný grein, 27. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Skyldur heilbrigðisstarfsmanna vegna réttar barna sem aðstandenda.
     Börn eiga rétt á viðeigandi ráðgjöf og stuðningi sem aðstandendur foreldris sem glímir við alvarleg veikindi eða foreldris sem andast, eftir því sem við á. Gefa skal barni kost á að tjá sig í samræmi við aldur þess og þroska og taka skal réttmætt tillit til skoðana þess.
     Heilbrigðisstarfsmanni, sem kemur beint að meðferð sjúklings, svo sem lækni, hjúkrunarfræðingi eða félagsráðgjafa, ber að huga að rétti barna og þörfum skv. 1. mgr. á eftirfarandi hátt:
  1. Kanna skal hvort sjúklingur með geðsjúkdóma, fíknisjúkdóma eða illvíga líkamlega sjúkdóma eigi barn undir lögaldri. Eigi sjúklingur barn undir lögaldri skal heilbrigðisstarfsmaður sjá til þess eins fljótt og unnt er að rætt sé við sjúklinginn um rétt og stöðu barnsins vegna veikinda foreldrisins. Að gættri trúnaðar- og þagnarskyldu skal heilbrigðisstarfsmaður hafa samráð við heilsugæsluna þar sem barnið á lögheimili um að bjóða barninu og þeim sem annast barnið í veikindum foreldris samtal skv. 3. mgr. Ef við á skal viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður, í samráði við heilsugæsluna, félagsmálanefnd viðkomandi sveitarfélags og foreldri eða forsjáraðila, hafa frumkvæði að samvinnu við skóla barnsins skv. 22. gr. a laga um leikskóla, 17. gr. a laga um grunnskóla eða 34. gr. a laga um framhaldsskóla.
  2. Þegar einstaklingur andast skal læknir sem gefur út dánarvottorð kanna hvort hinn látni hafi átt barn undir lögaldri. Reynist svo vera skal viðkomandi læknir eins fljótt og unnt er tilkynna andlát foreldrisins til heilsugæslunnar þar sem barnið á lögheimili. Að gættri trúnaðar- og þagnarskyldu skal heilbrigðisstarfsmaður heilsugæslunnar eins fljótt og unnt er bjóða barninu og þeim sem annast barnið samtal skv. 3. mgr. Ef við á skal viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður, í samráði við félagsmálanefnd í því sveitarfélagi þar sem barn á lögheimili og foreldri eða forsjáraðila, hafa frumkvæði að samvinnu við skóla barnsins skv. 22. gr. a laga um leikskóla, 17. gr. a laga um grunnskóla eða 34. gr. a laga um framhaldsskóla.

     Í samtali við barn samkvæmt þessari grein skal gætt að aldri þess og þroska varðandi þátttöku, upplýsingagjöf, leiðbeiningar, aðstoð og eftirfylgni. Sérstaklega skal hugað að því að aðstoða barnið við að fá aðgang að viðeigandi úrræðum og veita því upplýsingar um lagalega stöðu þess, svo sem rétt þess til umgengni samkvæmt barnalögum við nána vandamenn þess foreldris sem glímir við alvarleg veikindi eða foreldris sem andast eða aðra nákomna barni, og hvaða félagsleg úrræði eru til staðar.
     Foreldri eða forsjáraðili barns á rétt á reglubundnum viðtölum við heilbrigðisstarfsmann. Markmið þeirra viðtala er aðstoð við að styðja barnið og treysta velferð þess.
     Söfnun og meðferð upplýsinga samkvæmt ákvæði þessu skal vera í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
     Ráðherra kveður nánar á um framkvæmd þessa með reglugerð.

2. gr.

     Fyrirsögn VI. kafla laganna verður: Sérreglur um sjúk börn og börn sem aðstandendur.

II. KAFLI
Breyting á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, með síðari breytingu.

3. gr.

     Á eftir 1. mgr. 13. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Heilbrigðisstarfsmaður skal huga sérstaklega að rétti og stöðu barna sem aðstandenda, sbr. 27. gr. a laga um réttindi sjúklinga.

III. KAFLI
Breyting á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. a laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Ef foreldri er ókleift að rækja umgengnisskyldur sínar við barn eða foreldri nýtur verulega takmarkaðrar umgengni á barnið rétt á umgengni við nána vandamenn þess foreldris eða aðra nákomna barni, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið.
  3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Umgengni við aðra þegar foreldri er á lífi.


5. gr.

     Á eftir 46. gr. a laganna kemur ný grein, 46. gr. b, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Umgengni við aðra þegar annað foreldra barns er látið eða bæði.
     Ef annað foreldra barns er látið eða bæði á barnið rétt á umgengni við nána vandamenn þess foreldris eða foreldra eða aðra nákomna barni, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið.
     Ákvæði 2. málsl. 1. mgr. og 3.–5. mgr. 46. gr. eiga við um umgengni skv. 1. mgr.
     Sýslumaður getur boðið eftirlifandi foreldri og nánum vandamönnum hins látna foreldris eða öðrum nákomnum barni ráðgjöf skv. 33. gr. eða ákveðið að sátta verði leitað milli aðila eftir ákvæði 33. gr. a.
     Þegar sýslumanni berst tilkynning um andlát sem ber með sér að hinn látni eigi barn undir lögaldri skal hann kanna tengsl barns við nána vandamenn þess eða aðra nákomna því. Sýslumaður skal vekja athygli á rétti barnsins og gefa barni og foreldri eða forsjáraðila þess tækifæri til að mæta á fund sýslumanns á tilteknum tíma. Sýslumaður skal hafa samráð við barn eftir því sem aldur og þroski þess gefur tilefni til sem og við foreldri eða forsjáraðila, og skal hann leiðbeina þeim um inntak umgengnisréttar skv. 1. mgr. og um réttaráhrif hans. Barn getur sjálft gert kröfu um umgengni.

6. gr.

     Á eftir orðunum „skv. 46. gr. a“ í 7. mgr. 47. gr. laganna kemur: og 46. gr. b.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um leikskóla, nr. 90/2008, með síðari breytingum.

7. gr.

     Á eftir 22. gr. laganna kemur ný grein, 22. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Stuðningur við börn sem eiga langveikt eða deyjandi foreldri.
     Leikskólabörnum, sem eiga langveikt eða deyjandi foreldri eða missa foreldri, skal tryggður viðeigandi stuðningur og ráðgjöf innan leikskólans í samvinnu við heilbrigðisstofnun þar sem foreldrið er til meðferðar eða þá heilsugæslu sem hefur móttekið tilkynningu um andlát foreldris, félagsmálanefnd í því sveitarfélagi þar sem barn á lögheimili og foreldra eða aðra þá sem annast barnið. Gefa skal barni kost á að tjá sig í samræmi við aldur þess og þroska og taka skal réttmætt tillit til skoðana þess.
     Söfnun og meðferð upplýsinga samkvæmt ákvæði þessu skal vera í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
     Ráðherra kveður nánar á um framkvæmd þessa í reglugerð.

V. KAFLI
Breyting á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum.

8. gr.

     Á eftir 17. gr. laganna kemur ný grein, 17. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Stuðningur við nemendur sem eiga langveikt eða deyjandi foreldri.
     Grunnskólabörnum, sem eiga langveikt eða deyjandi foreldri eða missa foreldri, skal tryggður viðeigandi stuðningur og ráðgjöf innan grunnskólans í samvinnu við heilbrigðisstofnun þar sem foreldrið er til meðferðar eða þá heilsugæslu sem hefur móttekið tilkynningu um andlát foreldris, félagsmálanefnd í því sveitarfélagi þar sem barn á lögheimili og foreldra eða aðra þá sem annast barnið. Gefa skal barni kost á að tjá sig í samræmi við aldur þess og þroska og taka skal réttmætt tillit til skoðana þess.
     Söfnun og meðferð upplýsinga samkvæmt ákvæði þessu skal vera í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
     Ráðherra kveður nánar á um framkvæmd þessa í reglugerð.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, með síðari breytingum.

9. gr.

     Á eftir 34. gr. laganna kemur ný grein, 34. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Stuðningur við nemendur sem eiga langveikt eða deyjandi foreldri.
     Nemendum í framhaldsskóla, sem eiga langveikt eða deyjandi foreldri eða missa foreldri, skal tryggður viðeigandi stuðningur og ráðgjöf innan framhaldsskólans í samvinnu við heilbrigðisstofnun þar sem foreldrið er til meðferðar eða þá heilsugæslu sem hefur móttekið tilkynningu um andlát foreldris, félagsmálanefnd í því sveitarfélagi þar sem barn á lögheimili og foreldra eða aðra þá sem annast barnið og nemandann sjálfan hafi hann orðið lögráða eftir að stuðningur hófst. Gefa skal barni kost á að tjá sig í samræmi við aldur þess og þroska og taka skal réttmætt tillit til skoðana þess.
     Söfnun og meðferð upplýsinga samkvæmt ákvæði þessu skal vera í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
     Ráðherra kveður nánar á um framkvæmd þessa í reglugerð.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 4. júní 2019.