5.4.2002

Heimsókn forseta sænska þingsins til Íslands 6.-9. apríl

Dagana 6.-9. apríl 2002 verður forseti sænska þingsins, Birgitta Dahl, í opinberri heimsókn á Íslandi í boði Halldórs Blöndals, forseta Alþingis. Í för með Birgittu Dahl verða eiginmaður hennar, skrifstofustjóri þingsins og aðstoðarforstöðumaður alþjóðasviðs.

Sænski þingforsetinn heimsækir Alþingishúsið mánudaginn 8. apríl kl. 14.30 og mun forseti Alþingis flytja honum kveðju úr forsetastóli kl. 15.00.

Forseti sænska þingsins mun ræða við Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og Geir H. Haarde fjármálaráðherra. Forsetinn mun snæða hádegisverð með formönnum þingflokka Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Framsóknarflokks og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og eiga fund með formanni Samfylkingarinnar.

Á dagskrá sænska þingforsetans er ferð til Vestmannaeyja þar sem bæjarstjóri, forseti bæjarstjórnar, sýslumaður og ræðismaður Svía í Vestmannaeyjum taka á móti gestunum. Enn fremur verða sögusetrið á Hvolsvelli og Listasafn Íslands heimsótt.

Nánari upplýsingar um heimsóknina fást hjá alþjóðasviði Alþingis í síma 563 0738 og almannatengsladeild í síma 563 0622 eða 894 6519.