27.1.2003

Fyrsti fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 2003

Fyrsti fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg árið 2003 er haldinn dagana 27.-31. janúar.

Á fundinum verða ræddar skýrslur málefnanefnda Evrópuráðsþingsins um m.a. framlag Evrópuráðsins til Framtíðarráðstefnu Evrópusambandsins, staða mála í Tsjetsjníu-héraði, aðbúnaður flóttafólks í suðausturhluta Evrópu, tjáningarfrelsi í fjölmiðlum og menningarsamvinna Evrópu og ríkja norðanverðrar Afríku.

Að venju munu gestir ávarpa þingið, þ.á m. Abdullah Gül, forsætisráðherra Tyrklands og fyrrum fulltrúi á Evrópuráðsþinginu, sem ávarpar Evrópuráðsþingið mánudaginn 27. janúar.

Lára Margrét Ragnarsdóttir, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, Ólafur Örn Haraldsson varaformaður og Kristján L. Möller sækja fundinn fyrir hönd Íslandsdeildar.