24.6.2005

Heimsókn forseta eistneska þingsins 26.-30. júní 2005

Forseti eistneska þingsins, Ene Ergma, er í opinberri heimsókn á Íslandi í boði Halldórs Blöndals, forseta Alþingis, dagana 26.-30. júní. Í för með eistneska þingforsetanum eru sex manna sendinefnd sem í eru þingmennirnir Enn Eesmaa, formaður utanríkismálanefndar eistneska þingsins, Liina Tönisson, Maret Maripuu og Imre Sooäär, auk Heiki Sibul, skrifstofustjóra eistneska þingsins, og Merle Pajula, forstöðumanns alþjóðasviðs þingsins.
 
Í heimsókninni mun Ene Ergma eiga fundi með forseta Alþingis, formönnum þingflokka og fulltrúum utanríkismálanefndar. Þá mun hún heimsækja Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, á Bessastaði. Þriðjudaginn 28. júní mun sendinefndin skoða Nesjavallavirkjun, Írafossvirkjun og Ljósafossvirkjun auk þess sem hún heimsækir þjóðgarðinn á Þingvöllum. Miðvikudaginn 29. júní mun þingforsetinn halda í dagsferð um Norðausturland. Heimsókninni lýkur fimmtudaginn 30. júní.
 
Nánari upplýsingar um heimsóknina fást hjá skrifstofu Alþingis (almannatengsladeild í síma 563 0622 eða á alþjóðasviði í síma 563 0738).