23.8.2005

Ársfundur Vestnorræna ráðsins 22.-24. ágúst á Ísafirði

Ársfundur Vestnorræna ráðsins er haldinn á Ísafirði 22.-24. ágúst. Alls sækja fundinn 26 vestnorrænir og norskir þingmenn, auk Valgerðar Sverrisdóttur samstarfsráðherra Norðurlanda. Meðal efna á dagskrá fundarins eru vestnorrænt samstarf í sjávarútvegsmálum og Evrópusambandið, samgöngu- og ferðamannamál á Vestur-Norðurlöndum og samstarf á sviði orkumála, loftslags-, umhverfis- og heilbrigðismála. Í forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins sitja nú Jonathan Motzfeldt, formaður grænlenska Landsþingsins, Henrik Old, þingmaður færeyska Lögþingsins, og Birgir Ármannsson þingmaður sem er formaður ráðsins. Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur þjóðþinga Grænlands, Færeyja og Íslands. Hvert landanna skipar sex þingmenn í ráðið. Auk Birgis verða á fundinum fyrir hönd Íslands þingmennirnir Hjálmar Árnason, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Kjartan Ólafsson og Magnús Þór Hafsteinsson.