10.10.2005

Fjölþætt umræða um málefni kvenna á fjórðu og síðustu ráðstefnunni um konur og lýðræði

Fjórða og síðasta ráðstefnan um konur og lýðræði var haldin í Pétursborg 6.-8. október. Ráðstefnuröðin hófst í Reykjavík árið 1999, en síðan hafa verið haldnar ráðstefnur í Vilnius (2001) og Tallinn (2003).

Markmið ráðstefnunnar voru m.a. að auka samstarf kvenna og karla frá Rússlandi og Eystrasaltsríkjunum á sviði jafnréttismála og veita þeim tækifæri til skoðanaskipta. Á ráðstefnunni sóttu konur og karlar innblástur og hugmyndir til frekara starfs á þessum vettvangi.

Fjölmargar stofnanir og félagasamtök sóttu ráðstefnuna, en fyrir hönd Alþingis sátu hana Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, og Jónína Bjartmarz, Jóhanna Sigurðardóttir og Þuríður Backman úr forsætisnefnd Alþingis. Jafnframt sótti Rannveig Guðmundsdóttir ráðstefnuna sem forseti Norðurlandaráðs.

Sólveig Pétursdóttir tók þátt í pallborðsumræðum um ofbeldi gegn konum þar sem hún ræddi um aðgerðir gegn mansali. Við upphaf umræðunnar voru henni færð blóm og hamingjuóskir í tilefni af nýlegu kjöri hennar sem forseti Alþingis. Sólveig sagði frá ýmsum aðgerðum íslenskra stjórnvalda til að sporna gegn mansali og ræddi baráttuna gegn mansali út frá bæði lagalegum sjónarmiðum og mannréttindamálum. Sólveig lagði áherslu á að mikilvægum áfanga væri náð með nýlegum Evrópusamningi gegn mansali, en hann tekur sérstaklega á mannréttindum fórnarlamba mansals.

Jónína Bjartmarz tók þátt í pallborðsumræðum um konur og atvinnu- og efnahagslíf. Hún lagði áherslu á mikilvægt framlag kvenna til hagkerfisins. Hún ræddi m.a. um mikla atvinnuþátttöku kvenna á Íslandi, þrátt fyrir það að íslenskar konur eigi flest börn evrópskra kvenna. Hún ræddi jafnframt mikilvægi aldurssamsetningar fyrir efnahagslíf þjóða.

Þingmenn tóku þátt í störfum vinnuhópa á ráðstefnunni, en alls voru 14 vinnuhópar að störfum. Sólveig Pétursdóttir tók þátt í störfum vinnuhóps um mansal og setti fram tillögur í 11 liðum um það sem hún taldi að leggja ætti áherslu á í framtíðinni. Voru tillögur hennar lagðar fram sem hluti af niðurstöðum hópsins en í þeim er m.a. hvatt til staðfestingar alþjóðasamninga gegn mansali, fjallað um nauðsynlega lagasetningu á sviði mansals og refsilöggjafar og aðstoð við fórnarlömb mansals. Rannveig Guðmundsdóttir starfaði sem forseti Norðurlandaráðs einnig í vinnuhópi um mansal. Sagði hún frá áherslum Norðurlandaráðs í þessum málaflokki sem er einn af þeim málaflokkum sem Norðurlandaráð leggur áherslu á í samvinnu ráðsins við Eystrasaltslöndin og Rússland. Jóhanna Sigurðardóttir tók þátt í störfum vinnuhóps um konur og völd þar sem rætt var um leiðir til að auka þátttöku kvenna í stjórnmálum. Þuríður Backman var í vinnuhópi um aðgerðir gegn ofbeldi gegn konum þar sem m.a. var rætt um meðferðarúrræði fyrir ofbeldismenn.

Rannveig Guðmundsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, sleit ráðstefnunni.

Verið er að vinna úr niðurstöðum vinnuhópa og verða þær síðan birtar. Ljóst er að vilji er til að halda áfram samstarfi, þó að forminu verði breytt þar sem margt er enn óunnið í jafnréttismálum.