6.3.2006

Fyrsti fundur forseta þjóðþinga smáríkja var haldinn í Mónakó 26.-28. febrúar

Fyrsti formlegi fundur þingforseta smærri ríkja í Evrópu var haldinn í Mónakó 26.-28. febrúar. Um er að ræða átta sjálfstæð ríki, með undir milljón íbúa, sem eiga aðild að Evrópuráðinu. Auk Íslands falla Andorra, Kýpur, Liechtenstein, Lúxemborg, Malta, Mónakó og San Marínó undir þessa skilgreiningu. Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og þriðji varaforseti Alþingis, og Jón Gunnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sóttu fundinn fyrir hönd Alþingis. Á fundinum var rætt um sértæk viðfangsefni smærri ríkja varðandi efnahagsstjórn, samskipti við Evrópusambandið og Evrópuráðið, þróun kosningakerfa og veitingu ríkisborgararéttar.
 
Íslensku þingmennirnir kynntu stöðu þessara mála hér á landi og vöktu þróun hagkerfisins og samskipti Íslands við evrópskar stofnanir sérstakan áhuga fundargesta. Á fundinum ríkti samstaða um að þrátt fyrir mismunandi stöðu og reynslu ríkjanna átta þá stæðu þau frammi fyrir ýmsum sameiginlegum vandamálum og tækifærum, sérstaklega í ljósi aukinnar alþjóðavæðingar. Því væri mikilvægt fyrir ríkin og þjóðþing þeirra að efla tengsl sín á milli og læra af reynslu hvers annars. Í ljósi þess var ákveðið að halda áfram samstarfi þingforsetanna. Næsti fundur þeirra verður haldinn árið 2007 í boði þjóðþings San Marínó.