28.9.2006

Forseti litháíska þingsins þakkar Íslendingum stuðninginn við endurreisn sjálfstæðis Litháens

Viktoras Muntianas, forseti litháíska þingsins, Seimas, er nú staddur á Íslandi í opinberri heimsókn í boði forseta Alþingis. Tímasetning heimsóknarinnar var valin með tilliti til þess að nú eru liðin 15 ár frá því Ísland og Litháen tóku upp stjórnmálasamband.
 
Á fundi þingforsetanna færði Sólveig Pétursdóttir Viktorasi Muntianas að gjöf tvær innrammaðar þingsályktanir Alþingis. Sú fyrri var ályktun Alþingis samþykkt 12. mars 1990 um heillaóskir til litháísku þjóðarinnar vegna sjálfstæðisyfirlýsingar litháíska þingsins. Sú síðari var ályktun Alþingis samþykkt 11. febrúar 1991 sem staðfestir að viðurkenning sjálfstæðis Litháens frá 1922 væri í fullu gildi og felur ríkisstjórninni að taka upp stjórnmálasamband við Litháen svo fljótt sem verða má.
 
Muntianas þakkaði íslensku þjóðinni hjartanlega fyrir gjafirnar og stuðninginn við Litháen við endurreisn sjálfstæðis landsins. Stuðningurinn hefði komið á þeim tíma þegar alþjóðlegrar viðurkenningar var þörf og Ísland hefði sýnt hugrekki í málinu.
 
Á fundi Sólveigar Pétursdóttur og Viktoras Muntianas í Alþingishúsinu voru rædd varnar- og öryggismál og fjallað um málefni ESB. Í því sambandi lýstu þingforsetarnir báðir yfir ánægju með samstarf innan EES og ræddu björgunarmál. Muntianas staðfesti á fundinum stuðning Litháens við framboð Íslands til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Góð samskipti þjóðanna og þinganna voru ofarlega í huga þingforsetanna. Forseti Seimas lýsti yfir áhuga á frekari fjárfestingum Íslendinga í Litháen og forseti Alþingis lýsti yfir ánægju með framlag Litháa til atvinnulífsins á Íslandi. Þá ræddu þingforsetarnir um fíkniefnasmygl og mansal og lagði forseti Alþingis áherslu á samstarf í baráttunni gegn þessum vandamálum.
 
Viktor Muntianas hefur einnig átt fundi með forsætisráðherra, fulltrúum þingflokka, fulltrúum úr viðskiptalífinu og forseta Íslands.