21.1.2008

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 21.-25. janúar 2008

Fyrsti fundur Evrópuráðsþingsins á árinu verður haldinn í Strassborg dagana 21.–25. janúar. Fundinn sækja fyrir hönd Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins Guðfinna S. Bjarnadóttir formaður, Ellert B. Schram varaformaður og Steingrímur J. Sigfússon.

Helstu mál á þinginu eru val á nýjum forseta Evrópuráðsþingsins og umræða um framtíðarstöðu Kosovo-héraðs. Enn fremur mun svissneski þingmaðurinn Dick Marty, sem stjórnar rannsókn Evrópuráðsþingsins á aðgerðum í baráttunni gegn hryðjuverkum sem þykja brjóta í bága við mannréttindi, leggja fram þriðju skýrslu sína. Í henni er fjallað um lista öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins yfir einstaklinga og hópa sem taldir eru styðja eða vera hryðjuverkamenn en á grundvelli listans eru refsiaðgerðir gegn þeim framkvæmdar eins og frysting bankainnistæðna og ferðabönn.