19.9.2008

Opinber heimsókn forseta Alþingis til Rússlands 17.-22. september

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, og Hallgerður Gunnarsdóttir eiginkona hans eru í opinberri heimsókn í Rússlandi 17.-22. september, í boði forseta Dúmunnar, ásamt sendinefnd frá Alþingi.

Forseti Alþingis og sendinefndin áttu í gær fund með Vladimir G. Titov, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands. Á fundinum voru rædd tvíhliða viðskipti landanna, m.a. á sviði orkumála og samstarf í rannsóknum og vísindastarfi. Þá var rætt um átökin í Georgíu og ítrekaði forseti Alþingis afstöðu íslenskra stjórnvalda um að virða beri alþjóðlega viðurkennd landamæri Georgíu og harmaði átökin, einkum mannfall almennra borgara. Þá kom forseti Alþingis á framfæri athugasemdum við aukið yfirflug rússneskra flugvéla á íslensku flugumsjónarsvæði.

Að loknum fundi með ráðherra átti forseti Alþingis og sendinefnd þingmanna fund með Lyubov K. Sliska, einum af forsetum Dúmunnar, og rússneskum þingmönnum. Ræddu þingforsetar samstarf þinganna, auk þess að gera grein fyrir starfsemi og helstu nýmælum í störfum þjóðþinganna.

Síðdegis hélt forseti Alþingis fyrirlestur við orkudeild MGIMO háskólans í Moskvu, sem er í samstarfi við RES Orkuskóla háskólans á Akureyri. Gerði forseti grein fyrir sérstöðu Íslands í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og tækifærum Rússlands og Íslands til samvinnu á því sviði. Átti forseti við það tækifæri fund með Anatoly V. Torkunov, rektor MGIMO háskólans, og Valery I. Salgyn, yfirmanni orkudeildar háskólans. Lögðu fulltrúar háskólans áherslu á eflingu vísindasamstarfs þjóðanna.

Í dag hitti forseti Alþingis og íslenska sendinefndin ýmsar nefndir Dúmunnar, m.a. nefnd um málefni norður- og austursvæða Rússlands, vináttuhóp Dúmunnar og Alþingis og orkunefnd. Voru samskipti þinganna í deiglunni, ásamt mögulegu samstarfi þjóðanna á öðrum sviðum, s.s. viðskiptasviðinu. Formaður orkunefndar Dúmunnar, Yuri A. Lipatov, færði þau skilaboð frá orkumálaráðherra Rússlands að ríkisstjórn Rússlands hefði mikinn áhuga á samstarfi við Ísland í verkefnum tengdum endurnýjanlegum orkugjöfum, einkum jarðhita. Þá héldu fulltrúar rússneska orkurisans, Rushydro, kynningu á verkefnum þeirra, m.a. á sviði jarðhita-, vatnsafls- og sjávarfallavirkjana.

Síðdegis átti forseti Alþingis og íslenska sendinefndin fund með Mikhail Y. Nikolayev, einum forseta Sambandsráðsins, efri deildar rússneska þingsins. Ræddu þingforsetarnir málefni norðurslóða og samvinnu þjóðanna í verndun lífríkis og umhverfis norðurskautssvæðisins. Loks áttu forseti Alþingis og sendinefndin fund með fulltrúum íslenskra fyrirtækja í Moskvu, fyrir tilstilli sendiráðs Íslands.

Á morgun halda forseti Alþingis og íslenska sendinefndin til St. Pétursborgar og munu þar eiga fundi með fulltrúum héraðsþings St. Pétursborgar og heimsækja íslensk fyrirtæki á svæðinu. Opinberri heimsókn forseta Alþingis í Rússlandi lýkur nk. mánudag.

Með forseta í för eru Ásta R. Jóhannesdóttir, 1. varaforseti Alþingis, Bjarni Benediktsson, formaður utanríkismálanefndar, Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, og Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, auk Helga Bernódussonar skrifstofustjóra Alþingis og Jörundar Kristjánssonar, alþjóðaritara á skrifstofu forseta Alþingis.