29.9.2008

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 29. september til 3. október

Fjórði fundur Evrópuráðsþingsins á árinu verður haldinn í Strassborg dagana 29. september til 3. október 2008.

Fundinn sækja fyrir hönd Íslandsdeildar þau Guðfinna S. Bjarnadóttir formaður, Ellert B. Schram varaformaður og Steingrímur J. Sigfússon.

Það sem ber hæst á þinginu er sérstök umræða um afleiðingar átakanna milli Georgíu og Rússlands. Auk þess verður tekið til umræðu fyrirhugaðar breytingar á lögum í Bretlandi sem heimila allt að 42 daga gæsluvarðhald án dómsúrskurðar yfir meintum hryðjuverkamönnum, mat á baráttuherferð þingsins gegn heimilisofbeldi og drög að Evrópusáttmála um aðgang að opinberum gögnum.