29.6.2010

Heimsókn sendinefndar frá franska þjóðþinginu til Alþingis

Forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, tekur í dag kl. 10 árdegis á móti sendinefnd frá franska þjóðþinginu og mun eiga fund með sendinefndinni. Í framhaldi af því munu frönsku þingmennirnir hitta að máli starfshóp utanríkismálanefndar um Evrópumál og síðdegis eiga þeir fund með utanríkisráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra.

Á morgun mun sendinefndin eiga fund með þingmannanefnd um rannsóknarskýrslu Alþingis, sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og iðnaðarnefnd. Jafnframt munu frönsku þingmennirnir hitta sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að máli, auk þess að heimsækja íslensk fyrirtæki. Í sendinefndinni eru þingmennirnir Georges Colombier, formaður sendinefndar, Jean-Yves Cousin, Annick Girardin, Jacques Desallangre, Gérard Bapt, og Lionnel Luca.