1.3.2011

Forseti þýska Sambandsþingsins, dr. Norbert Lammert, í opinberri heimsókn á Íslandi 28. febrúar til 3. mars 2011

Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, átti í dag, 1. mars, fund með dr. Norbert Lammert, forseta þýska Sambandsþingsins, sem er í opinberri heimsókn á Íslandi í boði forseta Alþingis.
 
Forsetarnir ræddu samskipti þjóðanna og þau mál sem eru efst á baugi á Íslandi og í Þýskalandi. Forseti Alþingis lagði áherslu á mikilvægi þeirra vinabanda sem tengt hafa þjóðirnar um árabil og traust samskipti milli þjóðþinganna. Auk þess þakkaði hún stuðning þýska þingsins við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu.
 
Forseti þýska Sambandsþingsins fundaði einnig með þingmönnum í starfshópi utanríkismálanefndar um Evrópumál. Hann hefur jafnframt átt fundi með forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra í dag, ásamt því að hitta forsvarsmann verkefnisins Sögueyjan Ísland, sem hefur veg og vanda af þátttöku Íslands í bókasýningunni í Frankfurt haustið 2011. Jafnframt mun forseti þýska Sambandsþingsins hitta formenn þingflokka að máli.