16.5.2011

Forseti Alþingis í opinberri heimsókn í Noregi 16.-19. maí

Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, verður í opinberri heimsókn í Noregi dagana 16.-19. maí 2011 í boði Dag Terje Andersens, forseta norska Stórþingsins. Með forseta Alþingis í för verða þingmennirnir Álfheiður Ingadóttir og Kristján Þór Júlíusson.
 
Forseti Alþingis mun í heimsókninni eiga fundi með forseta norska Stórþingsins, utanríkis- og varnarmálanefnd þingsins, fulltrúum Stórþingsins í Norðurlandaráði og Jonasi Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs. Þá mun Ásta R. Jóhannesdóttir fara á fund Haralds Noregskonungs og vera viðstödd hátíðardagskrá í tilefni þjóðhátíðardags Noregs á 17. maí í Ósló.