30.6.2011

Tilnefning í nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT-nefndina)

Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins auglýsir eftir íslenskum ríkisborgurum sem áhuga hafa á að starfa fyrir hönd Íslendinga í nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT-nefndinni).

Þeir sem áhuga kynnu að hafa skulu hafa menntun og reynslu sem tengist starfi nefndarinnar og sérþekkingu á málum sem varða meðferð frelsissviptra einstaklinga. Nefndin hefur það að meginhlutverki að meta aðstæður í fangelsum, lögreglustöðvum, vistunarheimilum, búðum fyrir flóttamenn og hælisleitendur, geðsjúkrahúsum o.s.frv. í aðildarríkjum CPT-sáttmálans með tilliti til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um bann við pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Þátttaka í nefndinni felur í sér skuldbindingu um vinnuframlag erlendis u.þ.b. 40 daga á ári og er áhersla lögð á að verðandi nefndarmaður geti sýnt fram á að hann geti fengið sig lausan frá aðalstarfi í þann tíma til að sinna starfi nefndarinnar. Áskilin er góð kunnátta í ensku eða frönsku, sem eru vinnumál nefndarinnar.

Nauðsynlegt er að nefndarmaður sé óháður stjórnvöldum og koma þeir sem gegna lykilstöðum hjá hinu opinbera á þeim sviðum sem störf nefndarinnar ná til því almennt ekki til greina.

Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins tilnefnir um miðjan ágúst þrjá einstaklinga til að gangast undir hæfnismat og kýs ráðherranefnd Evrópuráðsins síðan einn af þeim í nefndina til fjögurra ára frá 19. desember 2011.

Frekari upplýsingar um störf nefndarinnar má fá á vefsvæðinu http://cpt.coe.int.

Þeir sem áhuga kynnu að hafa eru vinsamlega beðnir um að fylla út þetta eyðublað, helst á ensku eða frönsku, og senda á netfangið pace@althingi.is fyrir 25. júlí nk.