16.3.2012

Bein útsending verður frá vorþingi Norðurlandaráðs í Alþingishúsinu 23. mars 2012

Norðurlandaráð heldur vorþing með áherslu á norðurslóðir þann 23. mars í Alþingishúsinu. Rætt verður um málefni norðurskautsins út frá umhverfis-, jafnréttis- og velferðarsjónarmiðum. Vorþingið hefst kl. 8.30. Bein útsending með íslenskri túlkun verður frá þinginu í ríkissjónvarpinu og á vef Alþingis.

Meðal þess sem fjallað verður um eru tillögur um samræmda stefnumörkun Norðurlandanna í norðurskautsmálum, fjármögnun á auknum björgunarviðbúnaði á norðurskautssvæðinu, umhverfisvernd og olíu- og gasvinnslu á norðurskautssvæðum og um málefni frumbyggja á norðurskautssvæðum.

Nánari upplýsingar um fundarefni og dagskrá er að finna á vef Norðurlandaráðs.

Fundurinn hefst kl. 8.30 og stendur til kl. 11.30. Að honum loknum verður haldinn blaðamannafundur á fyrstu hæð Alþingishússins.

Upplýsingar fyrir fjölmiðla á vef Norðurlandaráðs.

Vorþingið er nýmæli í störfum ráðsins og ber upp á dag Norðurlandanna. Þetta er í fyrsta sinn sem Norðurlandaráð fundar í Alþingishúsinu en á hinum Norðurlöndunum hefur ráðið jafnan fundað í þjóðþingunum. Marsfundir Norðurlandaráðs eru haldnir í Reykjavík 21. og 22. mars.

Norðurlandaráð er skipað 87 þingmönnum frá öllum Norðurlöndunum. Íslandsdeild Norðurlandaráðs skipa Helgi Hjörvar formaður, Álfheiður Ingadóttir varaformaður, Árni Þór Sigurðsson, Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson, Lúðvík Geirsson og Siv Friðleifsdóttir.

Upplýsingar um Norðurlandaráð er að finna á vef Norðurlandaráðs norden.org.

Nánari upplýsingar veitir Helgi Hjörvar, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, í síma 697-9999.

Íslenskir fjölmiðlamenn þurfa að framvísa gildum blaðamannapassa við komu í Alþingishús.