12.10.2014

Tilnefning í nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyntingum

Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins auglýsir eftir íslenskum ríkisborgurum sem áhuga hafa á að starfa fyrir hönd Íslendinga í nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT-nefndinni).

Þeir sem koma til greina til að starfa fyrir nefndina þurfa að hafa menntun og reynslu sem tengist starfi nefndarinnar og sérþekkingu á málum sem varða meðferð frelsissviptra einstaklinga. Nefndin hefur það að meginhlutverki að meta aðstæður í fangelsum, lögreglustöðvum, vistunarheimilum, búðum fyrir flóttamenn og hælisleitendur, geðsjúkrahúsum o.s.frv. í aðildarríkjum CPT-sáttmálans með tilliti til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um bann við pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Þátttaka í nefndinni felur í sér skuldbindingu um vinnuframlag erlendis u.þ.b. 40 daga á ári og er áhersla lögð á að verðandi nefndarmaður geti sýnt fram á að hann geti fengið sig lausan frá aðalstarfi í þann tíma til að sinna starfi nefndarinnar. Áskilin er góð kunnátta í ensku eða frönsku, sem eru vinnumál nefndarinnar.

Nauðsynlegt er að nefndarmaður sé óháður stjórnvöldum og koma þeir sem gegna lykilstöðum hjá hinu opinbera á þeim sviðum sem störf nefndarinnar ná til því almennt ekki til greina.

Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins tilnefnir í nóvember þrjá einstaklinga til að gangast undir hæfnismat og kýs ráðherranefnd Evrópuráðsins síðan einn af þeim í nefndina til fjögurra ára frá 19. desember 2015.

Frekari upplýsingar um störf nefndarinnar má fá á vefsvæði CPT nefndarinnar.

Þeir sem áhuga kynnu að hafa eru vinsamlega beðnir um að fylla út þetta eyðublað, helst á ensku eða frönsku, og senda á netfangið vilborgasa@althingi fyrir 31. október nk.