19.8.2016

25 ára sjálfstæðisafmæli Eistlands og Lettlands og fundur forseta þjóðþinga

Laugardaginn 20. ágúst fagnar Eistland 25 ára sjálfstæðisafmæli og er Einari K. Guðfinnssyni, forseta Alþingis, boðið að vera viðstaddur hátíðarhöld af því tilefni og ávarpa eistneska þingið. Sunnudaginn 21. ágúst fagnar Lettland 25 ára afmæli endurreists sjálfstæðis og er forseta Alþingis boðið að vera viðstaddur viðburði af því tilefni. Mun hann meðal annars leggja blómsveig að Frelsisminnismerkinu í Ríga og flytja ávarp. 

Árlegur fundur forseta þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja verður haldinn í Ríga í Lettlandi mánudaginn 22. ágúst. Á dagskrá fundarins er meðal annars umræða um þau mál sem borið hafa hæst í stjórnmálum og þjóðlífi í löndunum átta frá síðasta fundi. Á fundinum munu þingforsetarnir einnig ræða áherslur í samstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja á sviði öryggismála og samstarfsverkefni við ríki Austur-Evrópu. Þá verður samstarf þinganna í alþjóðastarfi, áskoranir í efnahagsmálum og staða innflytjenda og hælisleitenda einnig til umræðu. Einar K. Guðfinnsson mun flytja framsöguerindi um stöðu lýðræðis á fundinum og stýra umræðum um efnið.