2.9.2015

Forseti Alþingis ávarpar heimsráðstefnu þingforseta

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, ávarpaði í gær heimsráðstefnu þingforseta sem haldin er í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York dagana 31. ágúst – 2. september á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins. Ráðstefnan er haldin í aðdraganda leiðtogafundar um ný þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Einar sat í undirbúningsnefnd ráðstefnunnar.

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, flytur ávarp á heimsráðstefnu þingforseta

©Un Photo/Kim Haughton

Forseti gerði að umtalsefni þann árangur sem náðst hefur við að framfylgja þúsaldarmarkmiðunum, þótt enn sé ýmislegt óunnið. Jafnframt ræddi hann aukinn straum flóttamanna frá átakasvæðum, eða löndum sem hafa búið við stríð og borgarastyrjaldir. Hvatti hann Evrópuþjóðir til að axla ábyrgð og taka á móti fólki í nauð en benti jafnframt á mikilvægi aukinnar alþjóðlegrar neyðaraðstoðar sem næst átakasvæðum. Einar K. Guðfinnsson lagði áherslu á mikilvægi fyrirbyggjandi aðgerða í þágu friðar þar sem þingmenn geta lagt lóð á vogarskálar. Forseti gerði einnig að umræðuefni jafnréttismál og mikilvægi kynjajafnréttis sem öllum ber að virða sem grundvallarmannréttindi. Að lyktum þakkaði hann forseta og framkvæmdastjóra Alþjóðaþingmannasambandsins gott samstarf við undirbúning ráðstefnunnar og framlag þeirra við gerð nýrra þróunarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Heimsráðstefna þingforseta 2015

Að lokinni heimsráðstefnu þingforseta í New York fer forseti Alþingis í vinnuferð til Washington D.C. dagana 3.–4. september. Þar mun hann meðal annars eiga fundi með fulltrúum Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hitta fræðimenn frá hugveitunum Brookings og Heritage að máli.

Ávarp forseta Alþingis flutt á heimsráðstefnu þingforseta 1. september 2015.