23.4.2018

Forseti Alþingis fundar með forseta þýska þingsins í Tallinn

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, átti í dag fund með Wolfgang Schäuble, forseta þýska Sambandsþingsins, í tengslum við ráðstefnu þingforseta Evrópusambandsríkja og EFTA ríkja í Tallinn í Eistlandi. Ræddu þeir tvíhliða samskipti Íslands og Þýskalands, einkum þjóðþinganna, og lagði Steingrímur áherslu á að viðhalda og efla hin góðu samskipti Alþingis og þýska Sambandsþingsins.

Schäuble var áhugasamur um endurreisn efnahags Íslands eftir hrun og þann árangur sem náðst hefur, en báðir voru þingforsetarnir fjármálaráðherrar á árunum eftir fjármálakreppuna. Einnig ræddu þingforsetarnir þær áskoranir sem eru upp í alþjóðlegu þingmannasamstarfi á tímum þvingunaraðgerða gegn Rússlandi, stöðu lýðræðis og aukin áhrif nýmarkaðsríkja, einkum Kína.

Þá ræddu Steingrímur J. og Schäuble loftslagsbreytingar og vanda sem þeim fylgja. Steingrímur lagði áherslu á samvinnu þjóða um málefni Norðurskautsins og þær hættur sem fylgja hnattrænni hlýnun; bráðnun heimskautaíss, hlýnun og súrnun sjávar, og breytingu á hafstraumum og lífríki sjávar. Kynnti hann formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu, 2019–
2021, og gerði grein fyrir Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle Assembly, sem haldið er í Reykjavík í október ár hvert.

Forseti Alþingis á fundi með forseta þýska  Sambandsþingsins