15.5.2018

Forseti Alþingis í opinberri heimsókn í Noregi 15.–18. maí

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, verður í opinberri heimsókn í Noregi dagana 15.–18. maí 2018 í boði Tone Wilhelmsen Trøen, forseta norska Stórþingsins. Með forseta Alþingis í för verða þingmennirnir Guðjón S. Brjánsson, 1. varaforseti Alþingis, og Líneik Anna Sævarsdóttir ásamt Helga Bernódussyni, skrifstofustjóra Alþingis og Jörundi Kristjánssyni, forstöðumanni forsetaskrifstofu.

Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, ásamt sendinefnd í opinberri heimsókn í Noregi í maí 2018.

Forseti Alþingis og sendinefndin frá Alþingi munu í heimsókninni eiga fundi með forseta norska Stórþingsins, utanríkis- og varnarmálanefnd þingsins, fulltrúum Stórþingsins í landsdeild EFTA/EES, Ernu Solberg forsætisráðherra og Jan Tore Sanner, samstarfsráðherra Norðurlanda. Þá mun Steingrímur J. Sigfússon ganga á fund Haralds Noregskonungs og vera viðstaddur hátíðardagskrá í tilefni þjóðhátíðardags Noregs á 17. maí í Ósló og Eiðsvöllum. Ljósmyndir frá heimsókninni á Flickr-síðu norska þingsins.

Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, í opinberri heimsókn hjá forseta norska Stórþingsins, Tone Wilhelmsen Trøen.

Ljósmyndir © Stortinget