7.3.2016

Heimsókn sendinefndar til Japans

Sendinefnd frá Alþingi heimsækir Tókýó dagana 7.-11. mars í boði vináttuhóps Íslands í japanska þinginu. Tilefni heimsóknarinnar er 60 ára afmæli stjórnmálasamskipta Íslands og Japans. Sendinefndin er skipuð fimm þingmönnum úr utanríkismálanefnd, þeim Hönnu Birnu Kristjánsdóttur formanni, Silju Dögg Gunnarsdóttur, Vilhjálmi Bjarnasyni, Óttari Proppé og Steinunni Þóru Árnadóttur.

Meðan á heimsókninni stendur mun sendinefndin m.a. eiga fundi með Tadamori Oshima, forseta japanska þingsins, vináttuhópi Íslands í þinginu, undir forystu Shinako Tsuchiya og utanríkismálanefnd þingsins, undir formennsku Nobuo Kishi, auk sérstaks fundar með þingkonum. Þá mun sendinefndin hitta Nobuteru Ishihara efnahagsráðherra Japans. Enn fremur heimsækir sendinefndin jafnréttisskrifstofu japanska stjórnarráðsins, höfuðstöðvar Háskóla Sameinuðu þjóðanna og japanska nýsköpunarráðið auk annarra stofnana. Helstu umfjöllunarefni heimsóknarinnar verða hvernig auka má viðskipti Íslands og Japan sbr. ályktun Alþingis frá 1. mars sl. um fríverslun við Japan auk samstarfs á sviði jafnréttismála, jarðhitamála og málefna norðurslóða.