20.6.2002

Evrópuráðsþing í Strassborg 24.-28. júní

Þriðji fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg í ár verður haldinn dagana 24.-28. júní. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins mun sækja fundinn en hana skipa þau Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, Ólafur Örn Haraldsson varaformaður og Margrét Frímannsdóttir.

Það sem hæst mun bera í störfum Evrópuráðsþingsins á júnífundinum er m.a. framtíðarsamvinnu milli samevrópskra fjölþjóðastofnana og störf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans. Þá mun Evrópuráðsþingið einnig fjalla og álykta um stöðu flóttamanna í Júgóslavíu og ennfremur um stöðu flóttamanna í Aserbaíjan, Armeníu og Georgíu.

Að venju er tignargestum boðið til fundarins til að halda ávörp og svara spurningum þingmanna. Að þessu sinni munu m.a. Beatrix Hollandsdrottning og Borís Traíjkovskí, forseti fyrrum Júgóslavíulýðveldisins Makedóníu, mæta til fundarins í Strassborg.

Evrópuráðsþingið heldur alls fjóra þingfundi á ári, í janúar, apríl, júní og september.