10.8.2002

Þingmannaráðstefna um Norðurskautsmál í Tromsö

Dagana 11.-13. ágúst er haldin þingmannaráðstefna um Norðurskautsmál í Tromsö í Noregi en slíkar ráðstefnur eru haldnar á tveggja ára fresti í boði Þingmannanefndar um Norðurskautsmál. Íslandsdeild þingmannaráðstefnu um Norðurskautsmál sækir ráðstefnuna.

Helstu málefni sem rætt verður um á ráðstefnunni eru m.a. sjálfbær þróun á Norðurskautssvæðinu, fjartækni, umhverfismál og hlutverk Norðurskautssvæða á Ríóráðstefnunni í Jóhannesarborg auk ýmissa annarra sameiginlegra málefna ríkjanna sem skipa Norðurskautsráðið.

Nýskipuð Íslandsdeild þingmannaráðstefnu um Norðurskautsmál sækir ráðstefnuna í Noregi en hana skipa þau Sigríður Anna Þórðardóttir formaður, Magnús Stefánsson varaformaður og Þórunn Sveinbjarnardóttir. Aðild að þingmannanefnd um Norðurskautsmál eiga Bandaríkin, Kanada, Rússland, Noregur, Svíþjóð, Finnland, Danmörk og Ísland. Þingmannanefndin var stofnuð árið 1994.