26.10.2002

Þing Norðurlandaráðs í Helsinki

Norðurlandaráðsþingið er haldið í Helsinki dagana 29.-31. október en í ár fagnar Norðurlandaráð fimmtíu ára afmæli sínu. Þingið verður óvenju hátíðlegt í tilefni af þessum merku tímamótum. Fullskipuð Íslandsdeild Norðurlandaráðs sækir þingið.

Almenn dagskrá Norðurlandaráðsþingsins hefst miðvikudaginn 30. otkóber með framsögu forsætisráðherra Svíþjóðar um forgangsmál norræna ríkisstjórnarsamstarfsins árið 2003, en þá taka Svíar við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Þá verður efnt til umræðna um utanríkis- og varnarmál og fyrirspurnartíma með norrænu samstarfsráðherrunum.

Fjölmörg mikilvæg pólitísk þemu munu verða tekin til umfjöllunar á Norðurlandaráðsþinginu, m.a. auknir möguleikar Norðurlandabúa til að flytjast hindrunarlaust innan Norðurlanda. Af öðrum málefnum sem bera munu hátt á þingi Norðurlandaráðs má m.a. nefna aðlögun nýbúa að norrænum samfélögum, baráttuna gegn mansali og kynlífsþrælkun, byggðamál og málefni nærsvæða Norðurlanda, m.a. Kalíningrad.

Íslandsdeild Norðurlandaráðs skipa þau Ísólfur Gylfi Pálmason formaður, Sigríður Jóhannesdóttir varaformaður, Sigríður Anna Þórðardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Drífa Hjartardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.