2.2.2003

Febrúarfundir Norðurlandaráðs í Stokkhólmi

Dagana 3.-4. febrúar verða febrúarfundir Norðurlandaráðs haldnir í sænska þinginu. Auk hefðbundinna flokkahóps- og nefndarfunda verður efnt til eins sameiginlegs fundar ráðsins.

Þema sameiginlega fundarins er formennskuáætlun Svía í Norrænu ráðherranefndinni starfsárið 2003 en hún nefnist "Norðurlönd sem heild". Í áætluninni er m.a. lögð áhersla á aðlögun nýbúa á Norðurlöndum og hvernig auka megi virkni þeirra í samfélaginu. Berit Andnor, norræni samstarfsráðherra sænsku ríkisstjórnarinnar, mun hafa framsögu á fundinum.

Fyrir hönd Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sækja febrúarfundina Ísólfur Gylfi Pálmason formaður, Sigríður Jóhannesdóttir varaformaður, Sigríður Anna Þórðardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Drífa Hjartardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.