8.6.2004

Þemaráðstefnu um stöðu orkumála í vestnorrænu löndunum 8.-10. júní

Vestnorræna ráðið heldur þemaráðstefnu um orkumál og sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda hérlendis dagana 8.-10. júní 2004. Ráðstefnan fer fram í Reykjavík og á Svartsengi og er einn stærsti viðburður á vegum Vestnorræna ráðsins á þessu ári. Meginmarkmið ráðstefnunnar er að efla upplýsingaflæði á milli landanna í þessum málaflokki og að finna fleti á frekara samstarfi.

Þingmenn frá Grænlandi, Færeyjum og Íslandi munu á ráðstefnunni bera saman bækur sínar um ástandið í orkumálum ríkjanna og huga að því hvert stefnir. Fjölmargir sérfræðingar munu flytja erindi um margvíslegar hliðar orku- og umhverfismála. Gert er ráð fyrir að ársfundur Vestnorræna ráðsins sem haldinn verður í ágúst nk. muni endurspegla niðurstöður ráðstefnunnar í ályktunum sínum til þjóðþinga vestnorrænu landanna.

Ráðherrar sem fara með orkumál í aðildarríkjum Vestnorræna ráðsins sækja ráðstefnuna, sem og fulltrúar Norðurlandaráðs, norrænu ráðherranefndarinnar og norska þingsins. Fyrir hönd Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sitja ráðstefnuna Birgir Ármannsson formaður, Hjálmar Árnason varaformaður, Einar Oddur Kristjánsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Magnús Þór Hafsteinsson og Anna Kristín Gunnarsdóttir.