9.9.2005

Fundur jafnréttisnefndar Evrópuráðsþingsins í Reykjavík 12.-13. september 2005

Dagana 12.-13. september mun jafnréttisnefnd Evrópuráðsþingsins halda fund í Reykjavík og er Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins gestgjafi hans. Fundurinn verður haldinn á Hótel Loftleiðum og er alls búist við um 50 þátttakendum, bæði þingmönnum og starfsmönnum þjóðþinga aðildarríkjanna.

Meðal efnis á fundi jafnréttisnefndarinnar er samþætting vinnu og fjölskyldulífs og skýrsla um konur og trúarbrögð í Evrópu.

Af 10 málefnanefndum Evrópuráðsþingsins (Council of Europe Parliamentary Assembly) er jafnréttisnefndin (Committee on Equal Opportunities for Women and Men) yngsta nefndin, stofnuð árið 1998. Frá upphafi hefur nefndin fjallað um jafnréttismál í víðum skilningi, kvenréttindi og baráttuna gegn ofbeldi gegn konum. Nefndin hefur barist fyrir aukinni þátttöku kvenna á öllum sviðum samfélagsins. Á síðustu tveimur árum hefur hún beitt sér mjög í málefnum er lúta að mansali og vændi.

Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sækja fundinn þingmennirnir Sólveig Pétursdóttir, formaður, Siv Friðleifsdóttir, varaformaður, og Margrét Frímannsdóttir.

Fundurinn hefst kl. 9.30 mánudaginn 12. september á Hótel Loftleiðum. Nánari upplýsingar um fundinn fást hjá alþjóðasviði, skrifstofu Alþingis, í síma 563-0737 eða 699-2902.