1.4.2005

Þing Alþjóðaþingmannasambandsins í Manila 3.-8. apríl 2005

112. þing Alþjóðaþingmannasambandsins er haldið í Manila á Filippseyjum dagana 3.-8. apríl 2005. Fundinn sækja þingmennirnir Einar K. Guðfinnsson, Hjálmar Árnason og Kristján L. Möller, auk Belindu Theriault, forstöðumanns alþjóðasviðs skrifstofu Alþingis.

Helstu mál sem rædd verða á þinginu eru:
- Hlutverk þjóðþinga við mótun viðurkenndra leikreglna til að dæma stríðsglæpi, glæpi gegn mannkyninu, þjóðarhreinsanir og hryðjuverk.
- Hlutverk þjóðþinga við sköpun nýrra leiða í alþjóðlegri fjármögnun og viðskiptum til að taka á vandamálum tengdum skuldsetningu ríkja og til að ná þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna (Millennium Development Goals).
- Hlutverk þjóðþinga við að standa vörð um mannréttindi þegar kemur að leiðum til forvarna, meðhöndlunar og meðferðar við HIV/AIDS.

Á sama tíma er haldinn fundur skrifstofustjóra aðildarríkja IPU og hann sækir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis.