30.4.2002

Heimsókn varaforseta rússnesku Dúmunnar til Íslands 2.–6. maí

Dagana 2.–6. maí 2002 verður varaforseti neðri deildar rússneska þingsins, Dúmunnar, Pjotr Romanov, í opinberri heimsókn á Íslandi í boði Halldórs Blöndals, forseta Alþingis. Í för með Pjotr Romanov verða þingmennirnir Farida Gajnullina, Nikolaj Kiselev, Nikolaj Sorokin, Viktor Topilin og aðstoðarforstöðumaður alþjóðasviðs skrifstofu rússneska þingsins.

Rússneski varaforsetinn og fylgdarlið heimsækja Alþingishúsið föstudaginn 3. maí kl. 9.05 og munu eiga fund með forseta Alþingis.

Sendinefndin frá rússneska þinginu ræðir við Davíð Oddsson forsætisráðherra og ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, Sverri Hauk Gunnlaugsson. Þá heimsækir hún Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, á Bessastöðum.

Varaforsetinn og þingmenn Dúmunnar munu snæða hádegisverð með formanni og nefndarmönnum í utanríkismálanefnd Alþings. Enn fremur eiga þeir fund með fulltrúum þingflokka Sjálfstæðisflokks, Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Á dagskrá rússnesku gestanna er heimsókn í Marel og Hitaveitu Suðurnesja, auk þess sem þeir munu skoða Þingvelli og aðra sögustaði og náttúruminjar.