29.10.2002

Opinber heimsókn forseta Alþingis til Finnlands 30. október-1. nóvember

Halldór Blöndal, forseti Alþingis, er í opinberri heimsókn í Finnlandi í boði forseta finnska þingsins dagana 30. október til 1. nóvember.

Í heimsókninni mun forseti Alþingis eiga fundi með Riittu Uosukainen, forseta finnska þingsins, og æðstu embættismönnum þingsins. Þá mun Halldór Blöndal eiga fundi með Törju Halonen, forseta Finnlands, og Erkki Tuomioja, utanríkisráðherra Finnlands.

Í heimsókninni mun forseti Alþingis m.a. ferðast til bæjarins Lohja og eiga fundi með bæjarstjóra og bæjarstjórnarmönnum. Í Helsinki mun sendinefndin m.a. heimsækja Espoo menningarmiðstöðina og sitja kvöldverð í boði vináttuhóps Íslands í finnska þinginu.

Með Halldóri Blöndal, forseta Alþingis, í för verða eiginkona hans, Kristrún Eymundsdóttir, og Ólöf Þórarinsdóttir, forstöðumaður þjónustusviðs Alþingis.