26.2.2003

Samráðsfundur norrænna þingforseta í Reykjavík 26.-28. febrúar

Árlegur samráðsfundur norrænna þingforseta verður haldinn í Reykjavík dagana 26.-28. febrúar. Halldór Blöndal forseti Alþingis mun taka á móti starfssystkinum sínum frá Norðurlöndunum, Ivari Hansen forseta danska þingsins, Riittu Uosukainen forseta finnska þingsins, Jørgen Kosmo forseta norska þingsins og Birni von Sydow forseta sænska þingsins.

Á meðal umræðuefna á fundi þingforsetanna er alþjóðlegt samstarf þjóðþinga, norræn sýn á stækkun Evrópusambandsins, samstarf þingnefnda norrænu þinganna, öryggismál í þingunum og tjáningarfrelsi og réttarstaða stjórnmálamanna.

Á meðan norrænu þingforsetarnir dvelja hér á landi munu þeir meðal annars skoða handritasýningu í Þjóðmenningarhúsinu, heimsækja Íslenska erfðagreiningu og sækja tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Nánari upplýsingar um fundinn fást hjá alþjóðasviði Alþingis í síma 563 0738 og almannatengsladeild í síma 563 0622 eða 894 6519.