3.3.2006

Forseti Alþingis greindi frá stöðu jafnréttismála á Íslandi á fundi kvenþingforseta í New York

Þann 27. febrúar sat Sólveig Pétursdóttir fund kvenþingforseta sem haldinn var í tengslum við 50. fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York. Tólf kvenþingforsetar sóttu fundinn.
 
Rætt var um leiðir til að vinna að auknu jafnrétti og aukinni þátttöku kvenna í stjórnmálum. Forseti Alþingis sagði frá því að íslenskar konur hefðu komið saman á kvennafrídeginum til að krefjast jafnréttis á Íslandi. Í því sambandi lagði hún áherslu á mikilvægi þess að konur stæðu saman um grundvallargildi jafnréttisbaráttunnar þó að þær hefðu ólíkar stjórnmálaskoðanir. Þá útskýrði Sólveig fæðingarorlofslögin, en hún sagði feðraorlof valda byltingu í viðhorfum til kynjahlutverka og stuðla að auknu jafnrétti á vinnumarkaðnum.
 
Á fundinum ræddu þingforsetarnir hvernig breyta mætti starfsháttum þinga til að stuðla að auknu jafnrétti. Forseti Alþingis sagði frá áherslum sínum, m.a. á nauðsyn þess að vinnutími þingmanna yrði fjölskylduvænni og að stuðlað yrði að jafnari dreifingu vinnuálags á hverju löggjafarþingi.

Sólveig ræddi leiðir til að fræða ungt fólk um starfsemi þjóðþingsins og auka áhuga þess á því sem þar fer fram. Í því sambandi nefndi hún sérstök skólaþing sem væru starfrækt hjá sumum þinganna á Norðurlöndunum og sem hún hefði áhuga á að koma á hjá Alþingi. Skólaþingin, sem eru sérhannað kennsluefni, gefa ungu fólk tækifæri til að setja sig í spor þingmanna og kynnast leikreglum lýðræðisins af eigin raun. Sólveig lagði áherslu á að mikilvægt væri að stúlkur og drengir tækju jafnan þátt í slíkum verkefnum og þetta gæti verið áhugaverð leið til að breyta viðhorfum skólabarna í löndum þar sem stutt hefð væri fyrir þátttöku kvenna í stjórnmálum.

Að lokum hvatti Sólveig starfssystur sínar til að nota stöðu sína til að beina athygli þjóðfélagsins að vandamálum sem varða konur sérstaklega, eins og mansal og heimilisofbeldi.

Þann 1. mars hélt Alþjóðaþingmannasambandið þingmannafund um hlutverk þjóðþinga í jafnréttisbaráttunni. Auk forseta Alþingis, Sólveigar Pétursdóttur, sátu fundinn þær Ásta Möller, formaður Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins og Jóhanna Sigurðardóttir, 4. varaforseti Alþingis. Í umræðum um leiðir til að auka þátttöku kvenna í stjórnmálum ræddi Ásta Möller, hvernig kvennasamtök innan stjórnmálaflokka gætu hjálpað konum til áhrifa. Hún tók jafnframt þátt í umræðum um kynjakvóta og sagði skoðanir skiptar meðal stjórnmálaflokka á Íslandi um gildi þeirra. Í umræðum um samstarf karla og kvenna í jafnréttisbaráttunni sagði sendinefnd Alþingis frá fæðingarorlofslögum á Íslandi.

Um 160 þingmenn frá 60 ríkjum sóttu þingmannafundinn. Meðal fundarmanna voru þingkonur frá Írak en þetta var fyrsta tækifæri nýja írakska þingsins til að taka þátt í alþjóðlegum fundi af þessu tagi. Íslenskar þingkonur fengu tækifæri til að ræða við írakskar starfssystur sínar sem lögðu mikla áherslu á að ná tengslum við þingmenn annarra ríkja.