1.11.2006

Aðstoð við lýðræðisuppbyggingu rædd á fundi þingforseta Norðurlandanna

Sólveig Pétursdóttir sat fund norræna þingforseta sem haldinn var miðvikudaginn 1. nóvember sl. í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn. Á fundinum skiptust þingforsetarnir m.a. á upplýsingum um starfsaðstöðu fjölmiðlafólks í þjóðþingunum og aðgang þess að þingmönnum. Þá var rætt um aðstoð við þing í löndum þar sem lýðræðisuppbygging er í gangi og lýsti forseti Alþingis því yfir að Alþingi væri reiðubúið að taka þátt í verkefnum með öðrum norrænum þingum á þessu sviði.
 
Forseti Alþingis sagði frá umræðum um hlerunarmál á Íslandi og kynnti málstað Íslendinga í hvalveiðum. Ennfremur skýrði hún frá undirbúningi að breytingum á ýmsum þáttum þingskapa Alþingis og væntanlegu skólaþingi. Á fundi þingforsetanna með fulltrúum forsætisnefndar Norðurlandaráðs var m.a. rætt um fjárhagsáætlun og starfsáætlun ráðsins fyrir árið 2007.