17.11.2006

Forseti Alþingis í opinberri heimsókn á Indlandi 18.-24. nóvember 2006

Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, mun heimsækja Indland 18.-24. nóvember í boði forseta neðri deildar indverska þingsins, en þetta er fyrsta opinbera heimsóknin á milli þinganna. Með þingforseta í för verður eiginmaður hennar, Kristinn Björnsson, og þingmennirnir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Kristjánsson, Sigríður Anna Þórðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, auk Helga Bernódussonar skrifstofustjóra Alþingis og Belindu Theriault, forstöðumanns alþjóðamála.

Sendinefndin mun heimsækja indverska þingið og meðal annars funda með forsetum efri og neðri deildar þess og þingnefnd um málefni kvenna. Jafnframt mun sendinefndin eiga fundi með forseta Indlands, forsætisráðherra og ráðherra sem fer með málefni þingsins. Þá mun sendinefndin heimsækja Bangalore og Mumbai og hitta þar ráðamenn og fulltrúa atvinnulífsins.